Tekið jákvætt í hugmynd um fólksflutninga á fjöll

Múlakolla
Múlakolla
Á fundi Markaðs- og menningarnefndar Fjallabyggðar þann 17. mars var tekið fyrir erindi Þórðar Guðmundssonar og Elísar Hólms Þórðarsonar f.h. óstofnaðs einkahlutafélags, dagsett 13. febrúar 2014. Óskað er eftir leyfi Fjallabyggðar til að ferja fólk upp á fjöll sem eru í eigu sveitarfélagsins, með sérútbúnum snjótroðara, til útsýnis- og skíðaferða. 
Bæjarráð hafði vísað málinu til umfjöllunar í nefndinni. 
Á fund nefndarinnar mætti Þórður Guðmundsson til að kynna nánar hugmyndir að fólksflutningum á fjöll. Leitað er eftir heimild fyrir að ferja fólk upp í Múlakollu í Ólafsfjarðarmúla og Burstabrekkudal og Hólkotshyrnu í Ólafsfirði. Fari svo að leyfi fáist er stefnt að því að hefja ferðir veturinn 2014-2015.  Laga þarf vegaslóða þessu tengdu og er óskað heimildar til að sjá um það. 
Markaðs- og menningarnefnd tók jákvætt erindið og leggur til við bæjarráð að afnot af landi sé heimiluð, af því gefnu að haft verði samráð við tæknideild varðandi slóðagerð og sótt verði um leyfi til skipulags- og umhverfisnefndar.