Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt sýnir teikningar og vatnslitaverk í Herhúsinu, vinnustofu listamanna Norðurgötu 7b Siglufirði 1. - 12 ágúst kl. 14-17
Um sýninguna og listamanninn:
Vatnsliturinn er einstaklega skemmtilegur og spennandi miðill með fjölbreyttum möguleikum. Í vatninu blandast litirnir í blæbrigði og litatóna og dreifast um myndflötinn; oft óútreiknanlega og óvænt. Alltaf er spennandi að fylgjast með endanlegri útkomunni.
Ég er svo lánsamur að hafa alla starfsævina haft ástríðu fyrir mínu starfi og þar hefur teikningin spilað stórt hlutverk og verið mitt áhugamál. Á seinni árum hefur vatnsliturinn bæst við. Vatnsliturinn gefur teikningunni alla jafna skýrari og meira lifandi mynd. Hann færir litbrigði og birtu sem iðulega dregur fram mýktina í myndinni.
Sýningin SNJÓ- OG LITAFLÓÐ skiptist í tvo meginhluta. Einn hluti hennar er sérstaklega tileinkaður Siglufirði og þá sér í lagi snjóvarnagörðunum sem nú vernda bæinn og íbúa bæjarins. Hinn hluti sýningarinnar sýnir vatnslitamyndir frá ýmsum stöðum. Í þeim hluta eru margar myndanna unnar á Breiðafirði, þar sem sjórinn flæðir í margbreytileika sínum og straumarnir eru á ferð - út eða inn fjörðinn - og gera það að verkum að landsýnin er síbreytileg. Elliðaárdalurinn er vinsælt myndefni, enda rétt við bæjardyrnar hjá mér. Þar leikur streymi vatnsins og vatnagangur lykilhlutverk, m.a. fyrir þær sakir að Elliðaárnar renna niður dalinn og mynda lón, fossa og flúðir.
Siglufjörður gengur langt inn í land umkringdur fjöllum á þrjá vegu þar sem sjórinn speglar fjallasalinn og birtan er óviðjafnanleg í fjölbreytileika sínum.
Sem landslagsarkitekt fékk ég einstakt tækifæri til að vera með í þverfaglegu teymi við gerð snjóvarnagarðanna á Siglufirði, þar sem hlutverk landslagsarkitektsins var að gefa görðunum form og lögun og tengja þá nærumhverfinu. Varnagarðarnir mynda græna veggi og fallega nýja ásýnd. Skýringateikningarnar sem á sínum tíma voru kynntar á fjölmennum íbúafundum á Siglufirði hafa nú verið endurunnar og breytt í vatnslitamyndir. Í vatnslitamyndunum vil ég draga fram síbreytileika ljóss og birtu; þar sem skuggar leika um fjallshlíðarnar og leitast m.a. við að draga upp sólstafi yfir hafflötinn.
Með þessari sýningu vil ég vekja athygli bæjabúa og ferðamanna á að snjóvarnagarðarnir á Siglufirði eru órjúfanlegur hluti af byggðinni. Þar er að finna áhugaverðar útivistarleiðir - bæði undir og ofan við garðanna – og enginn er svikinn af stórbrotnu útsýninu yfir bæinn.