Svör til Foreldrafélags Grunnskóla Fjallabyggðar

Fjallabyggð
Fjallabyggð

Svör til Foreldrafélags Grunnskóla Fjallabyggðar vegna breytinga á skólastarfi Grunnskóla Fjallabyggðar.

Greiningarvinna
Ítrekað hefur verið bent á að ytra mat Menntamálastofnunar sem framkvæmt var í október 2015 er grundvallarskoðun á skólanum. Í því felst greining á skólanum, styrkleikum hans og veikleikum, ógnunum og tækifærum sem framkvæmd er af óháðum aðilum. Þar sem ný slík greining liggur fyrir var og er ekki talin ástæða til að framkvæma aðra slíka greiningu. Þetta hefur ítrekað komið fram. Ekkert sem kemur fram í skýrslu um ytra mat er á þann veg að það beri að véfengja.

Haldnir voru fundir með foreldrum um niðurstöður ytra mats og skýrsla um matið hefur bæði verið aðgengileg á heimasíðu Fjallabyggðar og á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Foreldrum var þannig gert kleift að koma skoðunum sínum á framfæri um viðbrögð og úrvinnslu vegna ytra mats skólans.

Samfélagsleg áhrif
Þegar kemur að því að meta lykilþætti sem einkenna gott samfélag er almennt litið svo á að góður grunnskóli og öflugt frístundastarf séu mikilvægir þættir.

Siglufjörður vs. Ólafsfjörður
Starfshópur um endurskoðun fræðslustefnu Fjallabyggðar fór yfir kosti og galla bygginga, leiksvæða, umhverfis, íþrótta, sundsvæða og ræddi ítarlega. Niðurstaðan var sú að að teknu tilliti til kosta og galla væri húsnæði ekki afgerandi þáttur í ákvörðun um skipulag kennslufyrirkomulags. Mikilvægt væri þó að þróa útfærsluleiðir á hvorum þeim stað sem valinn væri sem hentuðu þeim aldri sem þar væri við nám.

Skólahús grunnskólans eru sambærileg og geta hvort sem er nýst yngri og eldri nemendum. Í sumar verður ráðist í endurbætur á skólalóð við Norðurgötu sem henta vel fyrir yngri nemendur. Endurbætur á skólalóð við Tjarnarstíg eru áætlaðar á næsta ári.

Það að nemendur 1.-4. bekkjar komi saman strax í 1. bekk auðveldar nemendum félagatengsl þar sem um sömu bekkjarfélaga er að ræða frá ári til árs. Auðveldara verður að skipuleggja starf sem tryggir nemendum sömu tækifæri til náms-, íþrótta- og tómstundastarfs. Þekking og skólaþróun verður markvissari þegar yngri nemendum er kennt á sama stað. Það sama á við um eldri nemendur.

Hvað hefur breyst?
Spurt er hvað hefur breyst frá ákvörðun um skipulag kennslu frá 2011. Það sem hefur breyst frá 2011 er að komin er reynsla á það fyrirkomulag sem þá var ákveðið og ytra mat á þeirri reynslu sem nauðsynlegt er að bregðast við.

Útfærsla á nýju námsmati sem byggir á aðalnámskrá grunnskóla frá 2011, greinarsviðshluti fá 2013, lá ekki fyrir árið 2011. Innleiðing á nýju námsmati hófst fyrir u.þ.b. tveimur árum. Eitt af markmiðum þess er að gera skólaskil grunnskóla og framhaldsskóla auðveldari. Breytingar á námsmati grunnskóla leiða til breytinga frá því sem verið hefur og því nauðsynlegt að horfa til framtíðarskipulags en ekki þess sem áður hefur verið ákveðið. Skýrt kemur fram í ytra mati að efla beri samstarf skólastiga og auka hlutfall valgreina í 8.-10. bekk. Í ljósi þess að um breytingu á landsvísu er að ræða er áhersla lögð á að nýta kosti samfélagsins sem best. Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur samþykkt samstarf um þessi atriði ásamt því að miðla sérþekkingu sinni um kennsluhætti, skipulag skólastarfs og beitingu upplýsingatækni ef eftir því verður leitað. Með því að kenna eldri nemendum á Ólafsfirði er unnt að tryggja nemendum unglingadeildar betra aðgengi að námi í MTR sem staðnemendum. Möguleikar á að kenna valgreinar í samstarfi við MTR verða fleiri. Samstarf kennara GF og MTR verður auðveldara sem eykur tækifæri til skólaþróunar.

Í ytra mati kemur einnig fram að samræma verði betur kennslu í 1.-4. bekk á Siglufirði og í Ólafsfirði. Árgangar eru misstórir frá ári til árs og því er ekki mögulegt að tryggja að sama fyrirkomulag sé við lýði á yngsta stiginu í báðum byggðakjörnum ef að árgangar eru of fjölmennir. Til þess að hægt sé að tryggja að nemendur fái sömu námstækifæri er ákjósanlegast að taka upp árgagnakennslu á einum stað og leggja niður núverandi fyrirkomulag sem felur í sér samkennslu í 1.-4. bekk á Siglufirði og í Ólafsfirði.

Reynsla er einnig komin á skólaakstur. Í ljós hefur komið að fella þarf niður skólaakstur einungis nokkra daga á skólaári vegna veðurs og/eða færðar. Til þess að mæta þeim aðstæðum hefur verið brugðið á það ráð að taka á móti nemendum í skólahús í þeim byggðarkjarna sem þau eru búsett í.

Samræmd próf
Rétt er að nemendur í 4. bekk hafa alla jafna staðið betur að vígi í samræmdum prófum en nemendur í 7. og 10. bekk. Af því má draga þá ályktun að við upphaf skólagöngu hafa nemendur möguleika sem tapast við skólagöngu þeirra í skólanum. Nemendur hafa rétt á því að nýta getu sína alla skólagönguna í grunnskólanum og ber að bregðast við þessari alvarlegu stöðu. Nemendur eiga þann skýlausa rétt. Breytingar á skipulagi fela í sér endurskoðun á því sem verið hefur og eru til þess fallnar að ýta undir skólaþróun eins og fram hefur komið. Með skólaþróun skal stefnt að auknum námsárangri nemenda. Niðurstöður samræmdra prófa í Grunnskóla Fjallabyggðar má sjá í skýrslu um ytra mat á skólanum á vef Menningar- og menntamálaráðuneytisins.

Lengd viðvera, tómstundir og íþróttir
Fyrir liggur tillaga starfshóps um samþættingu skóla- og frístundastarfs fyrir 1.-4. bekk sem unnin var í samstarfi við íþróttafélög í Fjallabyggð, Tónlistarskólann á Tröllaskaga og Grunnskóla Fjallabyggðar. Markmiðið með því er að gefa nemendum kost á að sækja íþróttaæfingar, tónlistarnám og skipulagt tómstundastarf í beinu framhaldi af skóladegi í Frístund. Sett verður upp skipulag að Frístund og kl. 13.30- 14.30 eiga allir nemendur í 1.-4. bekk kost á að velja sér viðfangsefni sem tengist tómstundastarfi, tónlistarnámi eða íþróttaæfingum. Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu strax að lokinni Frístund kl. 14:35 fyrir þá sem ekki kjósa að taka þátt í Frístund.

Lengd viðvera verður starfrækt í skólahúsinu á Siglufirði fyrir nemendur í 1.-4. bekk og tekur við að lokinni Frístund fyrir þá sem það kjósa. Starfsemi lengdrar viðveru verður frá kl. 14:30-16:00. Greitt er fyrir Lengda viðveru samkvæmt gjaldskrá. Í Lengdri viðveru verður m.a. boðið upp á frjálsan leik, skipulagt starf og heimanámsaðstoð. Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu til Ólafsfjarðar kl. 15:45. Með því móti verður skóladagur barna í Fjallabyggð sem nýta Lengda viðveru jafnlangur.

Nánari upplýsingar um Frístund og Lengda viðveru eru aðgengilegar í fréttatilkynningu um samþættingu á skóla- og frístundastarfi á vef Fjallabyggðar.

Fjölgun nemenda
Gera má ráð fyrir sveiflum í árgöngum í Grunnskóla Fjallabyggðar alla tíð og verður tekist á við það verkefni hverju sinni eftir því sem við á. Meðal annars er hægt að mæta fjölmennum árgöngum með tveggja kennara kerfi og hópaskiptingu eins og gert er víða um land. 1. og 2. bekk er hægt að kenna í báðum byggðarkjörnum en það er mun síðri kostur en að hafa árganga á sama stað. Rökin má sjá hér að framan.

Samræða við unglinga
Athugasemdir frá unglingum hafa verið mótteknar og á þær hlustað. Skólastjórar hafa einnig rætt við unglinga og fengið viðbótarupplýsingar varðandi það sem þeim þykir að betur megi fara í breyttu skipulagi. Við athugasemdum unglinga um úrbætur, vegna m.a. húsgagna, tónlistar, aðgengi að interneti og matvælum frá Aðalbakaríi í skólahúsi við Tjarnarstíg verður brugðist eins og kostur er. Í Fjallabyggð er starfandi ungmennaráð sem er samráðsvettvangur ungmenna og sveitarfélagsins.

Upphaf og lok skóladags
Samkvæmt því skipulagi sem stillt hefur verið upp mun kennsla barna í 1.-5. bekk hefjast kl. 8:30. Skólabíll fer frá skólahúsi við Tjarnarstíg kl. 8:05 og boðið verður upp á gæslu í skólahúsi við Norðurgötu frá kl. 8:00 – 8:30. Stefnt er að því að bjóða nemendum 1.- 5. bekkjar upp á hafragraut áður en kennsla hefst. Reiknað er með að eldri nemendur hefji skóladag kl. 8:10 eins og er í dag. Skólabíll fer þá frá Norðurgötu kl. 7:40.

Búnaður íþróttamiðstöðva
Rétt er að íþróttahúsið á Siglufirði er ekki eins vel búið til íþróttakennslu og íþróttahúsið á Ólafsfirði. Búnaður er hins vegar að stærstum hluta í eigu sveitarfélagsins. Óskað verður eftir áætlun vegna tækjakaupa sem tekin verður til umfjöllunar við gerð fjárhagsáætlunar. Töluvert af búnaði íþróttamiðstöðvar í Ólafsfirði er eign MTR en til afnota fyrir aðra skóla í Fjallabyggð þegar MTR er ekki að nýta hann.

Ferðir til og frá skóla
Þær fullyrðingar sem koma fram í ályktun foreldrafélags um að akstur hafi áhrif á andlegan og samfélagslegan þroska barna eru okkur óþekktar. Ekki eru okkur heldur kunnugt um að akstur hafi áhrif á nám barna. Hér væri gott að fá rökstuðning byggðan á rannsóknum. Nemendur í Fjallabyggð munu helming námstíma síns vera nærri sínu heimili og helming í hinum byggðarkjarnanum. Daglegur ferðatími til og frá skóla er áætlaður 50 mín., að biðtíma meðtöldum, sem er langt innan þess viðmiðs sem gefið er upp um daglegan heildartíma skólaaksturs í reglum um skólaakstur nr. 656/2009. Þar segir að miðað skuli við að daglegur heildartíma skólaaksturs, að meðtöldum biðtíma, sé ekki lengri en 120 mín.

Skipulag rútuferða
Skólaakstur samkvæmt nýju fyrirkomulagi rúmast innan þess skipulags (ferðafjölda) sem fyrir er. Skólabíll mun hins vegar fara fyrstu ferð frá Siglufirði í stað Ólafsfjarðar eins og nú er. Skólabíll mun fara frá skólahúsi við Norðurgötu að lokinni kennslu hjá 1.- 4. bekk kl. 13:35, að lokinni Frístund kl. 14:35 og kl. 15:45 með þau börn sem nýta Lengda viðveru. Rútuliði er og verður alltaf til staðar í skólabíl á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Nemendum með skilgreinda fötlun verður fylgt í skólabíl. Næsta vetur má gera ráð fyrir þremur starfsmönnum í skólabíl frá Ólafsfirði kl. 8:05. Engar reglur eru til um fjölda rútuliða á hvern nemanda. Almennt er skipulag aksturs á milli byggðarkjarna í reglulegri endurskoðun með tilliti til þess að mæta þörfum eins og kostur er.

Ferðaveiki og kvíði
Einstaklingsvanda nemenda verður að taka fyrir hverju sinni, ekki er hægt að leysa það fyrir heild enda geta slík mál rekist á milli barna.

Leikskóli og rútuferðir
Nemendur í leikskólum Fjallabyggðar hafa farið í rútuferðir og hefur það gengið vel. Gert er ráð fyrir heimsóknum leikskólabarna með rútu í grunnskólann.

Andlegt, félagslegt og líkamlegt öryggi nemenda
Fjallabyggð mun nú sem áður leggja mikla áherslu á öryggi nemenda.

Viðbragðsáætlun
Viðbragðsáætlun liggur fyrir á heimasíðu Grunnskóla Fjallabyggðar. Hafi foreldrar athugasemdir við þá áætlun er óskað eftir því að þeir komi þeim á framfæri við skólastjórnendur eða bæjaryfirvöld.

Að lokum
Meirihluti bæjarstjórnar þakkar Foreldrafélagi Grunnskóla Fjallabyggðar fyrir bréfið og áréttar ákvörðun um breytingu á skólastarfi samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar frá 21. apríl sl. og samþykkt bæjarstjórnar á tillögu starfshóps um samþættingu á skóla- og frístundastarfi þann 18. maí. 2017.

Með vinsemd og virðingu, 

Helga Helgadóttir, forseti bæjarstjórnar
Steinunn María Sveinsdóttir, formaður bæjarráðs
S. Guðrún Hauksdóttir, formaður fræðslunefndar
Ríkharður Hólm Sigurðsson, bæjarfulltrúi
Ásgeir Logi Ásgeirsson, varabæjarfulltrúi
Nanna Árnadóttir, varabæjarfulltrúi
Valur Þór Hilmarsson, bæjarfulltrúi