27.05.2008
Byggðastofnun hefur gengið frá styrkveitingum og hlutafjárframlögum vegna mótvægisaðgerða ríkistjórnarinnar til eflingar atvinnuþróunar og nýsköpunar 2008 og 2009.
Í fyrri frétt okkar yfirsáust okkur tveir styrkir að upphæð 3.000.000 kr. hvor svo heildarstyrkupphæð til fyrirtækja í Fjallabyggð er því 25.250.000. Það má því segja að slagorð Fjallabyggðar "Fjallabyggð er frumkvöðull" eigi vel við.
Alls voru 200 milljónir króna til úthlutunar, 100 milljónir fyrir hvort ár. Alls bárust 253 umsóknir samtals að fjárhæð 1.528. mkr. Alls hlutu 69 verkefni styrk. Nokkrar umsóknir eru til frekari skoðunar.
Hæstu styrkina hlutu Þóroddur ehf. vegna uppbyggingar seiðaeldisstöðvar í Tálknafirði, JE-Vélaverkstæði ehf. Siglufirði, vegna þróunar á nýrri gerð af snekkju og Vélfag ehf. í Ólafsfirði til þróunar og smíði roðvélar, 5 milljónir hvert verkefni.
Alls komu 25.250.000 kr. í hlut fyrirtækja í Fjallabyggð.
Auk JE-vélaverkstæðisins og Vélfags fengu Siglufjarðar - Seigur ehf. 3.000.000 kr. til markaðssetningar erlendis á bátum sínum, Primex ehf. 3.000.000 kr. til vöruþróunar á sára- og brunasmyrsli úr Kítósan, Guðný Róbertsdóttir 750.000 kr. styrk til markaðssetningar Íslenska sæluhússins, Stígandi ehf. 3.000.000 kr. styrk til vöruþróunar fiskisnakks úr marningi og markaðssetningu erlendis. Skiltagerð Norðurlands ehf. 2.000.000 kr. styrk til vöruþróunar á náttúrusteini og Sigurjón Magnússon ehf. 3.500.000 kr. styrk til markaðssetningar slökkvi- og sjúkrabílaframleiðslu sinnar innanlands og erlendis.