Mynd: af heimasíðu MTR
Undirbúningur er í fullum gangi fyrir stórsýningu Menntaskólans á Tröllaskaga sem verður á morgun, laugardaginn 12. desember. Nemendur eru að leggja lokahönd á verkefni sín og upphengiferlið komið í gang. Sem fyrr er fjölbreytnin höfð að leiðarljósi og mun kenna ýmissa grasa á sýningunni. Má til dæmis nefna sjónlistir, ArtFabLab, útieldun og fjölda annara spennandi verkefna.
Á Stórsýningunni verða m.a. kynnt nokkur áhugaverð verkefni sem unnin hafa verið í frumkvöðlaáfanga skólans í haust. Nokkrir hópar hafa verið að störfum undanfarnar vikur við að skipuleggja eigin hugmyndir sem eiga að auka fjölbreytni í atvinnulífi og afþreyingu á svæðinu. Fjarnemar áttu að einbeita sér að sínu svæði. Hver kynning stendur í um 15 mínútur og verður hægt að bera fram spurningar til fyrirlesara. Eru gestir hvattir til að líta inn og kynna sér hugmyndir unga fólksins. Kynningarnar verða í stofunni Hæringi. Meðal verkefna sem verða kynnt eru:
- Tröllaskagi.is – Vefsíða fyrir ferðamenn þar sem hægt er að skoða hvað er í boði í gistingu og afþreyingu og panta.
- Múlinn – Skoðunarferðir á bát um fjörðinn með möguleika á sjóstangveiði og norðurljósasiglingum.
- Tölvuverkstæði – Tölvuviðgerðir og viðhald auk „server“-þjónustu
- Knattspyrnuskóli fyrir ungmenni
- Sala minjagripa sem merktir eru Fjallabyggð
- Íþrótta- og heilsutengd námskeið fyrir fullorðna í Fjallabyggð
- Líkamsræktarapp
- Afþreyingarferðir í Dalvíkurbyggð
- Söguferðir í Dalabyggð
Á laugardag verður opið kl. 13:00 - 16:00. Sýninguna verður einnig hægt að skoða í næstu viku á vinnutíma, frá kl. 8:00 - 16:00.
Nánari upplýsingar á heimasíðu MTR