Þórir Kristinn Þórisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar hefur sent frá sér yfirlýsingu um stöðu mála varðandi úthlutun byggðakvóta í Ólafsfirði og Siglufirði.
Yfirlýsingin er svohljóðandi:
"Byggðakvótinn er nokkuð í umræðunni þessa dagana sem fyrr. Illa gengur að uppfylla skilyrðin fyrir úthlutun kvóta, auk þess sem afgreiða þarf þær kærur sem liggja fyrir áður en af endanlegri úthlutun getur orðið. Í stuttu máli er staðan sú að nú þegar hefur verið úthlutað rúmum 65 tonnum af byggðakvóta til útgerðaraðila í Ólafsfirði en engum á Siglufirði.
Í gær, miðvikudaginn 5. mars, áttu Birkir J. Jónsson bæjarfulltrúi, Þorsteinn Ásgeirsson forseti bæjarstjórnar og undirritaður fund með sjávarútvegsráðherra þar sem farið var yfir byggðakvótamálin og leitað leiða til að auðvelda úthlutun byggðakvóta vegna ársins 2006/7.
Nú er svo komið að engin fiskvinnsla er á Siglufirði. Bæjaryfirvöld óskuðu eftir því við ráðuneytið að setja reglu fyrir Fjallabyggð sem heimilar útgerðaraðilum á Siglufirði að landa til vinnslu í Ólafsfirði og öfugt. Þessi breyting var samþykkt (sjá auglýsingu lið 2). „Í stað 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur: Fiskiskipum er skylt að landa til vinnslu innan sveitarfélagsins afla sem nemur, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerð þessari og skal úthlutun til þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt". Reglunni er ætlað að vinna gegn einokun á viðskiptum með aflann, án þess þó að útiloka vinnsluaðila á stöðunum frá að bjóða í aflann. Hún mun hafa lítil áhrif á úthlutun á komandi árum og þá vegna breyttra forsenda í fiskvinnslu í hvoru byggðalaginu fyrir sig.
Fram kom í samtali við ráðherra, að afli sem landað er hjá Fiskmarkaði Siglufjarðar til vinnslu í Ólafsfirði, væri metinn til byggðakvóta svo framalega að samningur sé milli aðilanna um viðskiptin með milligöngu fiskmarkaðarins og að aflinn sé ekki boðinn upp. Einnig kom fram að ekki er hægt að breyta viðmiðunardagsetningu þeirri sem sett er í 1 gr. reglugerðar nr. 1192/2007 , en þar segir „4. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar [nr. 439/2007] breytist og verður svohljóðandi:
Hafi framangreind skilyrði fyrir úthlutun a.m.k. 2/3 hluta aflaheimilda sem koma til úthlutunar til fiskiskips á grundvelli reglugerðar þessarar á fiskveiðiárinu ekki verið uppfyllt 15. júlí 2008 fellur niður úthlutun þeirra aflaheimilda sem óráðstafað er og skal Fiskistofa úthluta þeim aflaheimildum til annarra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í viðkomandi byggðarlagi í samræmi við skiptingu samkvæmt viðeigandi úthlutunarreglum."
Breytingunni er ætlað að rýmka þann tíma sem útgerðum er gefinn til að uppfylla skilyrði fyrir úthlutun. Til endurúthlutunar kemur því ekki fyrr en eftir 15. júlí 2008.
Rætt var um hvort ekki mætti meta þann afla sem landað var á fiskmarkað á tímabilinu haust 2006 til vors 2007 til úthlutunar byggðakvóta. Niðurstaðan var að það er ekki hægt. Lögin um byggðakvóta voru samþykkt í mars 2007.
Einnig kom skýrt fram hjá ráðherra að byggðakvóti er ætlaður til eflingar atvinnustarfsemi í byggðalagi en er ekki ætlaður einstaklingum.
Þórir Kr. Þórisson
bæjarstjóri"