Söngatriði Neons eitt af fimm atriðum sem komust áfram úr NorðurOrg 2019

NorðurOrg 2019 fór fram í íþróttahúsinu í Ólafsfirði föstudagskvöldið 25. janúar sl. Um stóran viðburð var að ræða þar sem um 480 unglingar komu saman frá félagsmiðstöðvum víðsvegar af Norðurlandi. Með unglingunum voru um 40 starfsmenn sömu félagsmiðstöðva.

Níu atriði kepptu um fimm sæti í úrslitakeppninni, Söngkeppni Samfés sem fram fer í Laugardalshöll 23. mars nk.

Fyrir hönd Neons, félagsmiðstöðvarinnar í Fjallabyggð kepptu hljómsveitin Ronja og ræningjarnir. Þau fluttu lagið Back to black. Söngur var í höndum Ronju Helgadóttur en aðrir í hljómsveitinni eru þeir Júlíus Þorvaldsson, Tryggvi Þorvaldsson, Mikael Sigurðsson, Kristján Már Kristjánsson og Hörður Ingi Kristjánsson.

Þau fjögur atriði önnur sem taka þátt í úrslitum í Laugardalshöll komu frá Akureyri, Skagafirði, Dalvík og Hvammstanga.

Að lokinni keppni hélt plötusnúðurinn Sveinbjörn Hjalti Sigurðsson uppi stuði og stemmningu til kl. 23.00 en þá héldu unglingarnir heim á leið.

Óhætt er að segja að kvöldið hafi tekist vel. Allir unglingarnir voru til mikillar fyrirmyndar og félagsmiðstöðvum sínum og sjálfum sér til mikils sóma. Hæfileikarnir á sviðinu voru gríðarlega miklir og þar fóru upprennandi listamenn sem öruggt er að við eigum eftir að sjá meira af í framtíðinni.

Félagsmiðstöðin Neon þakkar öllum þeim sem að kvöldinu komu kærlega fyrir aðstoðina.