Fyrsti sólardagur var í Ólafsfirði föstudaginn 25. janúar. í dag mánudaginn 28. janúar verður fyrsti sólardagur á Siglufirði. Sólin hverfur frá miðjum nóvember og sést ekki í rúma tvo mánuði vegna hárra fjalla er umlykja Siglufjörð og Ólafsfjörð.
Heimamönnum finnst vert að halda upp á sólardaginn og gera það m.a. með því að gæða sér á "sólarpönnukökum".
Sjálfsbjörg á Siglufirði hefur undanfarin ár haft það sem fjáröflun að baka "sólarpönnukökur" og selja. Hefð er fyrir því að fyrirtækjaeigendur kaupi pönnukökurnar og bjóði starfsfólki sínu upp á þær með kaffinu.
Í dag mánudaginn 28. janúar munu skólabörn Fjallabyggðar ganga um bæinn og syngja til sólarinnar nokkur vel valin sólarlög og m.a. eftirfarandi vísur:
Sól er yfir Siglufirði
sumarheið og skær,
blálygn sundin, bjartur spegill
bliki á þau slær.
Fjöllin eins og varnarvirki
vaka nær og fjær.
Fjöllin eins og varnarvirki
vaka nær og fjær
Sól er yfir Ólafsfirði
öllum gleði ljær
Blálygnt vatnið, bjartur spegill
bliki á það slær.
Inn með firði fjöllin vaka
fannhvít nær og fjær.
Inn með firði fjöllin vaka
fannhvít nær og fjær.
(Texti Ingólfur frá Prestbakka)