Skráning muna SPS og sýningar

Passíusálmarnir
Passíusálmarnir

Nú er lokið skráningu muna sem Héraðsskjalasafni Fjallabyggðar bárust frá gamla Sparisjóð Siglufjarðar. Meðal þess sem barst voru glerskápar og voru þeir teknir til handagagns á safninu. Munir SPS eru nú til sýnis á bókasafninu og einnig gafst tækifæri til að bæta við nýrri sýningu á Passíusálmunum.

Á þessu ári eru 350 ár síðan Passíusálmar Hallgrims Péturssonar komu fyrst út. Þeir voru gefnir út á Hólum í Hjaltadal árið 1666. Héraðsskjalasafnið á fyrstu útgáfuna frá árinu 1666 og er nú hægt að líta hana augum.
Undanfarið hefur forstöðukona unnið að því að safna saman hinum ýmsu útgáfum Passiusálmana og eru 10 útgáfur frá 17., 18. og 19. öld nú til sýnis á bókasafninu. Þessar bækur allar eru úr Hraunasafninu sem er bókasafn Guðmundar Davíðssonar á Hraunum. Það var keypt af honum árið 1938 fyrir 5.000 krónur borgaðar með afborgunum. Er skráð í gamla fundargerð bæjarins að bannað sé að láta frá sér, henda eða selja eina einustu bók úr safni hans. Kom það til út af því að eftir stríð var Siglufjarðarkaupstaður félítill og vildu einhverjir selja bækur úr safni Guðmundar til að styrkja stöðu bæjarsjóðs.
Sýningar í glerskápum eru nú:
1. Munir norræna félagsins
2. Munir frá karlakórnum Vísi
3. Munir frá Sparisjóð Siglufjarðar
4. Munir sem fundist hafa við tiltekt
5. Passíusálmar, útgáfur 1666, 1704, 1722, 1727, 1748, 1780, 1825, 1832, 1834, 1836(x2)
Myndir má sjá á facebooksíðu bókasafnsins