Síldarstúlkurnar komnar heim

Konur í síldarvinnu. Málverk Gunnlaugs Blöndal
Konur í síldarvinnu. Málverk Gunnlaugs Blöndal

Í gærkveldi þann 6. desember var, við formlega athöfn, málverk Gunnlaugs Blöndal „Konur í síldarvinnu“ afhent Síldarminjasafninu á Siglufirði en málverkið er gjöf frá Íslandsbanka. Er því óhætt að segja að víðförult málverkið sé loksins komið heim.

Það var Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka sem afhenti Síldarminjasafninu málverkið og tók Anita Elefsen, safnstjóri á móti gjöfinni.
Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs fór yfir sögu og ferðalag málverksins sem er bæði langt og ævintýralegt. Illugi Gunnarsson Mennta- og menningamálaráðherra ávarpaði gesti en hann er einn af hvatamönnum þess að málverkið kæmist heim, ásamt þeim Sigurði Hafliðasyni fyrrum útibússtjóra Íslandsbanka á Siglufirði og Örlygi Kristfinnssyni, fyrrum forstöðumanni Síldarminjasafnsins sem unnu hörðum höndum að því til margra ára að ná málverkinu heim til Siglufjarðar.

Nú er þeirri baráttu lokið og verkið komið heim. Óskum við Siglfirðinum öllum til hamingju.

Loks má þess geta að málverkinu er ætlað mikilvægt hlutverk í Salthúsinu þegar það opnar. Þar verður verkið sem miðja í nýrri sýningu um veturinn í síldarbænum.

Ferðasögu málverksins er hægt að lesa á heimasíðu Síldarminjasafnsins.

Fleiri myndir frá afhendingunni eru að finna hér.