Ljósmynd/Aðsend
Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og var þetta því í 23. sinn sem þau voru afhent en að þessu sinni hlaut Síldarminjasafnið verðlaunin fyrir fegrun umhverfis og bætt aðgengi. Afhenti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála fulltrúum Síldarminjasafnsins, þeim Anítu Elefsen og Örlygi Kristfinnssyni, verðlaunagripinn Sjónarhól á ferðamálaþingi 2017 í Hörpu í gær þann 4. október.
Það var mat dómnefndar að Síldarminjasafnið á Siglufirði sé gott dæmi um frumkvöðlavinnu, þar sem menningar- og atvinnusaga bæjarfélags hefur orðið að aðdráttarafli fyrir ferðafólk og verið mikilvægur liður í að endurnýja bæjarbraginn. Umhverfismálin, ásýnd og aðgengi eru afar mikilvægir þættir í þeirri sköpun. Þar segir einnig að tenging safnhúsanna þriggja hafi skapað nauðsynlega heildarmynd safnsvæðisins og auðveldað öllum gott aðgengi milli húsa. „Frágangur bryggju og ljósastaura endurvekur tíðaranda en hafa verið aðlagaðir nýju hlutverki. Þessar framkvæmdir hafa að mati dómnefndar verið vel unnar, skapað fallega bæjarmynd og náð að fanga þann staðaranda sem byggir á bæjarsögunni,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, er hún tilkynnti um verðlaunin.
Dómnefndin í ár var skipuð þeim Halldóri Eiríkssyni, arkitekt og formanni stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, Helenu Guttormsdóttur, lektor og námsbrautastjóra umhverfisskipulagsbrautar Landbúnaðarháskóla Íslands og Ólöfu Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra