Samstarf um heimasíðugerð

Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð
Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð
Ferðatröll, sem eru samtök ferðaþjónustuaðila á Tröllaskaga, sendu inn fyrir nokkru erindi til bæjaryfirvalda í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð þar sem óskað var eftir styrk við að útbúa heimasíðu yfir ferðaþjónustuaðila á Tröllaskaga.
Um yrði að ræða svokallaða VIST-síðu þar sem verður að finna allar upplýsingar um ferðaþjónustu á svæðinu; gistingu, veitingar, afþreyingu ofl.
Erindið hefur nú fengið umfjöllun hjá bæjarráðum beggja sveitarfélaga og hafa bæði samþykkt að fara í þetta verkefni.  Munu Kristinn J. Reimarsson markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar og Margrét Víkingsdóttir upplýsingafulltrúi Dalvíkurbyggðar verða ferðaþjónustuaðilum innan handar við gerð síðunnar og síðan sjá um að viðhalda og uppfæra upplýsingar á síðunni.
Hér er um spennandi verkefni að ræða og full þörf á því að bæta upplýsingaflæði til ferðamanna, jafnt innlendra sem erlendra. Nánast öll nágrannasveitarfélög hafa komið sér upp sambærilegum heimasíðum og má t.d. nefna visitskagafjordur.is og visitakureyri.is