Fyrsta haustlægð ársins hefur látið finna fyrir sér hér á norðvestan- og norðaustanverðu landinu sem og annarsstaðar. Þegar þetta er skrifað er appelsínugul viðvörun Veðurstofu Íslands í gildi fyrir Norðausturland og verður hún í gildi til klukkan 23:00 í kvöld. Viðvörun fyrir Norðvesturland fellur úr gildi nú eftir hádegi. Fylgjast má með upplýsingum um veður á www.vedur.is/vidvaranir.
Rafmagni sló út á Eyjafjarðarsvæðinu og víðar á Austurlandi um klukkan korter fyrir eitt í dag og unnið er að bilanagreiningu samkvæmt upplýsingum frá Landsneti. Víða er því enn rafmagnslaust og búast má við rafmagnstruflunum áfram. Hægt er að fylgjast með á www.landsnet.is.
Töluvert annríki hefur verið hjá lögreglu, björgunarsveitinni Tindi og björgunarsveitinni Strákum í Fjallabyggð sem hafa sinnt þó nokkrum verkefnum. Mest hefur þó verið að gera í Ólafsfirði sem af er degi. Mjög hvasst er á vegum og er fólki ráðlagt að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu. Sem dæmi að þá hefur vindur slegið í 32 m/s í Ólafsfjarðarmúla og 29 m/s við Saurbæjarás. Fylgjast má með færð og veðri á vef Vegargerðarinnar: https://www.vegagerdin.is/ferdaupplysingar/faerd-og-vedur/nordurland-faerd-kort/