Frá athöfninni sl. föstudag
Í byrjun árs var hrundið af stað verkefninu Ræsing í Fjallabyggð. Markmið verkefnisins var að kalla eftir góðum viðskiptahugmyndum frá íbúum Fjallabyggðar sem auka við flóru atvinnulífs í sveitarfélaginu. Einstaklingar, hópar og fyrirtæki voru hvött til þess að senda inn viðskiptahugmyndir og sækja um þátttöku í verkefninu. Alls bárust 13 umsóknir og voru sex verkefni valin til áframhaldandi þátttöku. Dómnefnd valdi umsóknir til áframhaldandi þróunar og til að vinna fullbúna viðskiptaáætlun, með það í huga að verkefnið sé tilbúið til fjárfestakynningar og reksturs.
Tvö verkefni heltust úr lestinni og því stóð valið á milli fjögurra verkefna;
- Beint frá báti. Umsækjendur: Vigfús Fannar Rúnarsson og Laufey Ingibjörg Lúðvíksdóttir
- Jarðskjálfta- og norðurljósamiðstöð á Tröllaskaga. (Earth and sky - Auroral and Earthquake centre) Umsækjandi Ármann Viðar Sigurðsson, byggingartæknifræðingur.
- Kláfur á Múlakollu. Umsækjandi Helgi Jóhannsson, viðskiptafræðingur.
- Farþegaferja - (The Arctic boat) Fólksflutningar á milli Ólafsfjarðar og Grímseyjar. Umsækjendur: Sæunn Tamar Ásgeirsdóttir, viðskiptafræðingur og Sigtryggur Arnþórsson, viðskiptalögfræðingur.
Sl. föstudag var komið að lokun þessa verkefnis þegar boðað var til lokahófs. Umsækjendur kynntu hugmyndir sínar og að lokum tilkynnti formaður dómnefndar, Sigurður Steingrímsson úrslitin. Dómnefnd var skipuð einum fulltrúa Nýsköpunarmiðstöðvar, einum fulltrúa Fjallabygðar og þremur fulltrúum styrktaraðila.
Fram kom í máli Sigurðar að öll fjögur verkefnin hefðu verið ákaflega vel unninn og mikill metnaður lagður í þau. Svo fór að dómnefndin gat ekki gert upp á milli tveggja verkefna og fengu þau því bæði 900.000 kr. í verðlaunafé fyrir bestu útfærðu hugmyndina. Þetta voru verkefnin; Farþegaferja, fólksflutningar á milli Ólafsfjarðar og Grímseyjar og Jarðskjálfta- og norðurljósamiðstöð á Tröllaskaga.
Í öðru sæti var verkefni Helga Jóhannssonar, Kláfur á Múlakollu, og fékk hann 600.000 kr. í verðlaunafé.
Dómnefnd ákvað svo að veita verkefninu, Beint frá báti, sérstök hvatningarverðlaun að upphæð 400.000 kr.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands hélt utan um verkefnið í samstarfi við Fjallabyggð og með stuðningi eftirtalinna fyrirtækja; Olís, Samkaup Úrval, Sigló-Hótel, Vélfag ehf., Sparisjóður Siglufjarðar, Rammi hf og Arion banki.
Anna Guðný Guðmundsdóttir starfsmaður Nýsköpunarmiðstöðvar var verkefnastjóri Ræsingu í Fjallabyggð.
Í lok samkomunar á föstudaginn var flutt tónlistaratriði frá Tónskóla Fjallabyggðar. Ronja Helgadóttir söng við undirleik Ave Tonisson.
Sigurvegarar Ræsingu í Fjallabyggð; frá vinstri: Ármann V. Sigurðsson, Sigtryggur Arnþórsson og Sæunn Tamar Ásgeirsdóttir.
Anna Guðný Guðmundsdóttir verkefnastjóri Ræsing í Fjallabyggð
Valur Þór Hilmarsson formaður atvinnumálanefndar Fjallabyggðar flutti ávarp.
Bæjarstjóri Fjallabyggðar, Gunnar I. Birgisson ávarpaði gesti.
Sigurður Steingrímsson formaður dómnefndar.
Ronja Helgadóttir nemandi við Tónskóla Fjallabyggðar söng við undirleik Ave Tonisson.
Frá vinstri: Helgi Jóhannsson, Ármann V. Sigurðsson, Anna Guðný Guðmundsdóttir, Sigtryggur Arþórsson og Sæunn Tamar Ásgeirsdóttir.
Þess má geta að fulltrúar verkefnisins Beint frá báti gátu ekki verið viðstödd athöfnina á föstudaginn.