Opið fyrir umsóknir um stofnframlög ríkisins - seinni úthlutun

Opið fyrir umsóknir um stofnframlög ríkisins - seinni úthlutun.

Ríki og sveitarfélögum er heimilt að veita stofnframlög til byggingar og kaupa á hagkvæmum leiguíbúðum sem kallast almennar íbúðir. Með því að styðja við uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði stuðla stofnframlög ríkisins að lægra leiguverði á hinum almenna leigumarkaði.

Auglýst er eftir umsóknum í síðari úthlutun fyrir árið 2022 um stofnframlög ríkisins til byggingar eða kaupa á almennum íbúðum skv. lögum nr. 52/2016 og reglugerð nr. 183/2020.

Heimild til úthlutunar stofnframlaga byggir á lögum um almennar íbúðir nr. 52/2016. Lögin voru samþykkt á Alþingi í júní 2016 í kjölfar samkomulags verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda í tengslum við kjaraviðræður árið 2015.

Markmið laganna er að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga, sem eru undir tekju- og eignamörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Þá er markmið laganna einnig að stuðla að því húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda og fari að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna.

Sækja skal um stofnframlög hjá bæði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og hjá Fjallabyggð þar sem viðkomandi íbúðir verða staðsettar.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Fjallabyggð er heimilt að veita stofnframlög til eftirtalinna aðila:

  1. Húsnæðissjálfseignastofnanna.
  2. Sveitarfélaga og lögaðila sem eru alfarið í eigu sveitarfélaga.
  3. Lögaðila sem starfandi voru fyrir gildistöku laga um almennar íbúðir og uppfylltu skilyrði til að fá lán frá Íbúðalánasjóði skv. 37. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, eins og ákvæðið var fyrir gildistöku laga um almennar íbúðir.

Ráðherra getur heimilað að veita stofnframlag til annarra lögaðila en að framan greinir, ef þeir eru ekki reknir í hagnaðarskyni og það samræmist tilgangi og markmiðum laga um almennar íbúðir.

Umsóknir skulu sendar á netfangið fjallabyggd@fjallabyggd.is. Umsóknarfrestur er til og með 16. október 2022

Í umsókn skal a.m.k. koma fram eftirfarandi:

  1. Hver umsækjandi er og stofnendur umsækjanda.
  2. Fjöldi, gerð, staðsetning og stærð íbúða sem fyrirhugað er að byggja eða kaupa.
  3. Framkvæmdaráætlun og framkvæmdatími, ef við á.
  4. Áætlað stofnvirði þeirra íbúða sem fyrirhugað er að byggja eða kaupa.
  5. Hvaða hópi húsnæðinu er ætlað að þjóna.
  6. Annað það sem nauðsynlegt er til þess að unnt sé að taka afstöðu til umsóknar.

Með umsókn skal leggja fram eftirfarandi gögn:

  1. Greinargerð um umsækjanda og eftir atvikum samþykktir og síðasta ársreikning umsækjanda.
  2. Staðfestingu fjármögnunar frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun, lánstíma, kjör og fjár­hæð og hlutfall af stofnkostnaði og staðfestingu brúarfjármögnunar, ef við á.
  3. Greinargerð um þörf á leiguhúsnæði á viðkomandi svæði og hvernig áætlanir um fyrir­hug­aðar byggingar eða kaup á almennum íbúðum taka mið af þeirri þörf, eftir atvikum með hliðsjón af húsnæðisáætlun hlutaðeigandi sveitarfélags.
  4. Nákvæma sundurliðun á stofnvirði þeirra íbúða sem fyrirhugað er að byggja eða kaupa, stað­festa af sérfræðingi ef við á.
  5. Viðskiptaáætlun, fyrir hverja íbúð, sem inniheldur leiguverð og áætlun um þróun þess.
  6. Kaupsamning eða verksamning, ef við á.
  7. Annað það sem nauðsynlegt er til þess að unnt sé að taka afstöðu til umsóknar.

Við mat á umsóknum er kannað hvort umsókn um stofnframlag samræmist ákvæðum laga og reglugerða. Enn fremur hvort það húsnæði sem á að byggja eða kaupa telst hagkvæmt og uppfyllir þarfir íbúa þannig að ásættanlegt sé, hvort þörf sé á leiguhúsnæði fyrir efnaminni leigjendur í sveitarfélaginu og hvort fjármögnun hafi verið tryggð með fullnægjandi hætti.

Fjallabyggð áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

 

Stofnframlög