Mynd: Jón Steinar Ragnarsson
Hagsmunaaðilar og áhugafólk um hátíðahöld um verslunarmannahelgina hafa tekið sig saman og stefna að því að bjóða upp á fjölbreytta og fjölskylduvæna dagskrá á Siglufirði þessa mestu ferðahelgi Íslendinga. Forsagan er sú að sl. haust sótti Ungmennafélagið Glói um tveggja milljóna styrk til Fjallabyggðar til að halda Síldarævintýri á Siglufirði árið 2019 en því erindi var hafnað. Forsvarsmenn félagsins og aðrir áhugasamir um að halda hátíð á Siglufirði þessa helgi ákváðu þrátt fyrir þessa niðurstöðu að athuga hvort áhugi væri meðal hagsmunaaðila í bænum til að setja saman spennandi dagskrá þessa helgi. Sú varð raunin og var stofnaður undirbúningshópur til að að vinna að því að gera hana að veruleika. Er sú vinna nú í fullum gangi.
Það er draumur undirbúningshópsins að það takist að virkja bæjarbúa í framkvæmd hátíðarinnar og fyrsta skrefið í þá átt var að láta þá, og aðra áhugasama, velja nafn á hátíðina. Fór sú kosning fram á fréttasíðunni trölli.is og urðu niðurstöður mjög afgerandi. Um 42% vildu að hátíðin héti Síldarævintýri, næsta heiti var Saman á Sigló, sem fékk um 28% atkvæða, aðrar tillögur fengu mun minna fylgi. Aðrar leiðir til að virkja bæjarbúa eru t.d. að skipta bænum í litahverfi og hvetja fólk til að skreyta sig og sitt nágrenni í litum síns hverfis, að hvetja til götugrillveislna þessa helgi og hugmyndir eru um fleiri leiðir til að skapa skemmtilega stemningu. Verða þessar hugmyndir kynntar nánar fljótlega.
Einhverjir hafa áhyggjur af því að þetta nafn vekji falskar vonir, að fólk sjái í hillingum hin gömlu góðu Síldarævintýri með stóru sviði í miðbænum og um eða yfir 10 þúsund manns að skemmta sér. Því er rétt að taka það fram strax að hátíðarhöldin eru hugsuð með nýju sniði og markmið þeirra er fyrst og fremst að sýna bæjarbúum og gestum allt það frábæra sem Siglufjörður hefur upp á að bjóða á ýmsum sviðum menningar og mannlífs.
Nýjar áherslur
Dagskrá hátíðarinnar verður sett saman af fjölmörgum smærri viðburðum í stað fjölmennra stærri viðburða og ræður þar nokkru það litla fjármagn sem úr er að spila. Ekki verður stórt svið í miðbænum heldur er hugmyndin að hafa 2 – 3 lítil útisvið þar sem listamenn troða upp og svo verður fjöldi viðburða á veitingastöðum, söfnum, setrum og vinnustofum listamanna. Munu þar heimamenn verða í aðalhlutverki en einnig mun landsþekkt listafólk koma fram. Dagskrá utan dyra verður að mestu aðeins yfir daginn en á kvöldin munu skemmti- og veitingastaðir bæjarins sjá um fjörið. Auk þess er stefnt að ýmsum möguleikum til að njóta hinnar heillandi náttúru Siglufjarðar t.d. með skipulögðum gönguferðum, hjólatúrum, hlaupum, á kajak og með fleiri leiðum. Er það von undirbúningshópsins að í bænum skapist nokkurs konar landlegustemning þar sem fólk röltir um bæinn og upplifir fullt af skemmtilegum og áhugaverðum viðburðum á hverju götuhorni.
Ekki má gleyma börnunum og er stefnt að fjölbreyttri afþreyingu fyrir þau. Ekki verða stór leiktæki á staðnum sem þarf að borga fyrir að fara í heldur verða í boði leikir og þrautir, listasmiðja, söngkeppni og ýmsir viðburðir. Einnig búum við svo vel á Siglufirði að hafa nú þrjú fín leiksvæði í miðbænum þar sem börnin geta fundið sér ýmislegt til dundurs, þ.e. skólabalinn, leiksvæði við Rauðku og ærslabelginn vinsæla á Blöndalslóðinni og er stefnt að því að bæta við leiktækjum þar fyrir börnin.
Í næstu Hellu munum við segja nánar frá dagskránni og undirbúningi hátíðarhaldanna. Nú þegar vitum við að þrjú skemmtiferðaskip munu leggja að bryggju á Siglufirði þessa helgi og nokkrir hópar burtfluttra stefna á Siglufjörð þessa helgi til að njóta. Með því erum við þegar komin með góðan grunn að skemmtilegri mannlífsflóru í miðbænum.
Það er von hagsmunaaðila og undirbúningshópsins að bæjarbúar taki þátt í að gera þessa hátíð sem glæsilegasta. Siglufjörður er án efa einn af mest spennandi bæjum landsins um þessar mundir, bær með mikla sögu, sem gert er hátt undir höfði m.a. á Sídarminjasafni og Þjóðlagasetri, bær með iðandi menningar – og mannlífi, frábærum veitingastöðum og skemmtilegum miðbæ að ógleymdri hinn heillandi náttúru. Hér er allt til staðar til að njóta og vera. Svo er bara stóra spurningin! Í hvaða skapi verða veðurguðirnir?
Stýrihópur um Síldarævintýri 2019
Guðmundur Óli Sigurðsson
Halldóra Guðjónsdóttir
Þórarinn Hannesson