Nýr kirkjugarður í Ólafsfirði verður við Brimnes

Samkomulag hefur náðst um staðarval nýs kirkjugarðs í Ólafsfirði. 

Samþykkt var á 243. fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar þann 15. maí sl. ráðgefandi niðurstaða íbúakosningar um staðarval nýs kirkjukarðs í Ólafsfirði. Könnunin var lögð fyrir þann 30. apríl sl. 

Um tuttugu prósent þeirra 589 íbúa sem voru á kjörskrá tóku þátt í íbúakönnuninni og féllu atkvæði á þann veg að um 62 prósent greiddu atkvæði með kirkjugarði við Brimnes og 38 prósent með tillögu um kirkjugarð við Garðsveg. 

Svæðið við Brimnes er 2,5 hektari að stærð og að finna sunnan megin við Ólafsfjarðarveg þegar keyrt er inn í bæinn, eftir að komið er út úr Múlagöngum. Meðal þess sem var talið vinna með svæðinu er að það sé innan þéttbýlis og einungis um átta hundrað metra frá Ólafsfjarðarkirkju.

Bæjarstjórn samþykkir með 7 atkvæðum að hafin verði formleg skipulagsvinna við Brimnes. 

Bæjarstjórn þakkar íbúum Ólafsfjarðar fyrir þátttöku í kosningunni.