Norðanátt kynnir Vaxtarrými fyrirfrumkvöðla, ný fyrirtæki og nýsköpun innan rótgróinna fyrirtækja á Norðurlandi.
Opnað hefur verið fyrir skráningar í viðskiptahraðalinn Vaxtarrými. Um er að ræða átta vikna viðskiptahraðall með áherslu á sjálfbærni með mat, vatn og orku að leiðarljósi þar sem þátttakendur fá tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki og vaxa með vindinn í bakið. Verkefnið er sérhannað með þarfir þátttökufyrirtækjanna í huga og hafa þau þannig áhrif á þá fræðslu sem stendur þeim til boða. Teymin hitta reynslumikla leiðbeinendur, frumkvöðla, fjárfesta og stjórnendur fyrirtækja á Norðurlandi og víðar á ráðgjafafundum, sitja vinnustofur og fræðslufundi og mynda sterkt tengslanet sín á milli.
Vaxtarrými hefst 4. október og lýkur 26. nóvember og fer fram á netinu. Jafnframt hittast teymin fjórum sinnum meðan á verkefninu stendur á vinnustofum á völdum stöðum á Norðurlandi. Leitast er eftir þátttakendum, þ.e. frumkvöðlum, nýjum fyrirtækjum og nýsköpunarverkefnum innan rótgróinna fyrirtækja á Norðurlandi sem eru komin af hugmyndastigi og vilja nýta Vaxtarrými Norðanáttarinnar til að vaxa.
Smellið hér til að opna umsóknarformið. Umsóknarfrestur er til og með 20. september. Í framhaldinu verða valin sex til átta teymi til þátttöku. Verkefnið er byggt upp að fyrirmynd viðskiptahraðla en þó sérhannað með þarfir þátttöku fyrirtækjanna í huga og hafa þau þannig áhrif á þá fræðslu sem stendur þeim til boða.
Samstarfsverkefnið Norðanátt er hreyfiafl sem miðar að því að skapa kraftmikið umhverfi á Norðurlandi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Að verkefninu Norðanátt koma Eimur, SSNV, SSNE, Nýsköpun í norðri og RATA. Hópurinn vinnur í anda nýrrar klasastefnu, þvert á stofnanir samfélagsins og hraðar framþróun og nýsköpun.
Við hvetjum fyrirtæki og frumkvöðla í Fjallabyggð til þess að sækja um.
Nánari upplýsingar veitir Anna Lind Björnsdóttir verkefnastjóri hjá SSNE, annalind@ssne.is