Mestur loðnuafli borist til Siglufjarðar

Loðnuveiðin hefur gengið vel undanfarna daga, en síðasta sólarhringinn hefur heldur hægt á veiðinni.

Beitir NK landaði ríflega 1000 tonnum á Raufarhöfn á föstudag og svipuðu magni í Grindavík í gær.
Súlan EA landaði 850 tonnum á Siglufirði á laugardag og tæpum 900 tonnum í gærkvöldi.
Björg Jónsdóttir landaði 1100 tonnum á Siglufirði á sunnudag og er nú á miðunum.
Dönsk loðnuveiðiskip hafa landað drjúgt hjá Síldarvinnslunni síðustu daga.
Ruth landaði 1000 tonnum á Siglufirði á laugardag landar þar aftur í dag. Ísafold landaði 1100 tonnum á Siglufirði á sunnudag og Beinur landaði 900 tonnum þar í gærkvöldi.
Geysir og Herdís J lönduðu samtals 1900 tonnum á Raufarhöfn í gærkvöldi og sl. nótt.
Sænska skipið Pólar landaði 550 tonnum á Raufarhöfn á sunnudag.

Mestur loðnuafli hefur borist til verksmiðju Síldarvinnslunnar á Siglufirði, en þar hafa um 17.800 tonn komið á land það sem af er vertíðinni. Rúmlega 62 þúsund tonnum hefur verið landað í heild hér á landi en upphafsúthlutun var 362 þúsund tonn.

Frétt af heimasíðu Síldarvinnslunnar.