Mynd 1. Kind eftir Aðalheiði S. Eysteinsdóttur
Mynd 2. Ida Semey
Mynd 3. Anna Júlía Friðbörnsdóttir og verk eftir hana
Um næstu helgi verða tveir menningarviðburðir í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Laugardaginn 12. mars kl. 15:00 opnar Anna Júlía Friðbjörnsdóttir sýningu í Kompunni.
Sýningin ber yfirskriftina Endimörk / Limits og stendur til 27. mars nk. Anna Júlía verður viðstödd opnun og eru allir velkomnir.
Endimörk / Limits
Á sýningunni eru ný tvívíð verk. Sýningartitillinn vísar til bókarinnar Endimörk Vaxtarins (Limits to Growth) frá1972 þar sem reynt var að greina hvert stefndi í heimi sem einkenndist af takmörkuðum gæðum en sæktist eftir takmarkalausum hagvexti. Skýringamyndir bókarinnar eru kveikjur verkanna sem samsett eru úr trérömmum (nokkurs konar míní vítrínum), glerperlum, og bókablaðsíðum úr alfræðiritröð Fjölva; Stóru blómabókinni og Stóru skordýrabókinni, sem komu út í íslenskum þýðingum á árunum 1972-1974.
Anna Júlía Friðbjörnsdóttir (f. 1973) býr og starfar í Reykjavík. Í myndlist sinni notar hún ýmsa miðla og aðferðir meðal annars teikningar, skúlptúr, vídeó og fundið efni. Hún nam myndlist við Manchester School of Arts, Manchester Metropolitan University; London Guildhall University og Myndlista og handíðaskóla Íslands. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið fjórar einkasýningar á Íslandi en hún var tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2018 fyrir sýninguna Erindi í Hafnarborg.
Sunnudaginn 13. mars kl. 14:30 verður Ida Semey með erindi á Sunnudagskaffi með skapandi fólki.
Erindið ber yfirskriftina „Sjáðu mig eða sjáðu til „ og verða bornar fram kaffiveitingar á meðan á erindi stendur. Allir eru velkomnir.
"Sjáðu mig eða sjáðu til"
Listaverk kvenna, sýnileiki og gildi endurspeglast ekki i safneign listasafna í Evrópu. Þarft er að gera átak í að koma listum kvenna á framfæri og skapa konum vettvang til sköpunar og sýninga. Í erindi mínu mun ég segja frá ráðstefnu sem ég fór á s.l. haust i Louisiana i Danmörku. Einnig mun ég fjalla um sýningar sem haldnar verða á þessi ári á Kaffi Klöru og frá verkefni um sögu skapandi kvenna í Ólafsfirði.
Ida Semey fæddist í Danmörku og er hálf dönsk og hálf hollensk, og kemur frá mjög listrænni fjölskyldu. Hún ólst upp á Spáni sem unglingur og kláraði stúdentspróf þaðan. Síðan tók hún Mastersgráðu i Spænskum og Suðuramerískum bókmenntum frá háskólanum í Leiden í Hollandi. Árið 1988 fluttist Ida til Islands, og kenndi spænsku við MH frá 1991 til 2014, þar til hún flutti til Ólafsfjarðar þar sem hún kennir i dag. Auk þess stundar hún listnám í MTR og er eigandi Kaffi Klöru í Ólafsfirði.