Sýningin Sköpun og verk er tileinkuð handverki, sköpun og hönnun í Fjallabyggð og haldin í Menningarhúsinu Tjarnarborg fyrsta vetrardag 27. október og verður sýningin opin frá kl.13.00 – 17.00.
Þátttakendur í sýningunni verða:
Sjálfsbjörg Siglufirði.
Þar mæta félagar með hina ýmsu muni til sýnis og sölu sem gerðir eru á vinnustofu Sjálfsbjargar sem staðsett er að Lækjargötu 2 Siglufirði. Sjálfsbjargarfélagið á Siglufirði var stofnað 9. júni 1958 og er elsta félag Sjálfsbjargar á Íslandi.
Kolbrún Símonardóttir frá Siglufirði
Kolbrún Símonardóttir verður með bútasaumsverk sem hún hannaði og saumaði. Verkið kallar hún Arfleiðin og er óður til íslensks handverks. Kolbrún jurtalitar íslenska ull og vinnur úr og einnig málar hún og saumar.
Ólafur Símon Ólafsson
Ólafur Símon Ólafsson er Siglfirðingur og starfar sem kokkur á Sigló Hóteli en í frístundum sínum leggur hann hönd á gerð mini skúlptúra af ýmsum gerðum. Margir mini skúlptúrar Ólafs Símonar eru í anda Warhammer sem er herkænskuspil og hefur sköpun Ólafs Símonar vakið athygli út um allan heim. Hann Óli Símon er alveg að verða heimsfrægur listamaður.
Kristjana Valdey Valgeirsdóttir frá Ólafsfirði
Kristjana Valdey er mikil handverkskona. Hannar skart úr hreindýrahornum, brennir myndir á við ásamt því að vinna muni úr kindahornum og íslenskri ull. Kristjana tínir einnig jurtir úr íslenskri náttúri í krydd til matargerðar.
Allir velkomnir.