Leysingar; Alþýðuhúsinu á Siglufirði frestað til Hvítasunnu

Metnaðarfull dagskrá verður í Alþýðuhúsinu á Siglufirði um páskana en þar mun Gjörningahátíðin Leysingar standa yfir frá 2. - 4. apríl. Markmið með listahátíðinni er að miðla menningu og listum til nærsamfélagsins um leið og gestum er boðið að njóta.

Það verða tvennir tónleikar, þrjár myndlistarsýningar, upplestur rithöfundar, listamannaspjall og uppákoma og síðast en ekki síst gjörningur á föstudaginn langa. 

Þeir listamenn sem koma fram eru:                                                                                      

Óskar Guðjónsson - Pétur Grétarsson - Kjartan Valdimarsson – Sjón - Tara Njála Ingvarsdóttir - Silfrún Una Guðlaugsdóttir - Edda Björk Jónsdóttir - Þórir Hermann Óskarsson - Auður Lóa Guðnadóttir - Starkaður Sigurðarson - Hallgrímur Helgason - Rodrigo Lopes - Arna Guðný Valsdóttir

Dagskrá á Leysingum er eftirfarandi, vinsamlegast skráið ykkur á viðburðina í síma 865-5091 og tekið verður við frjálsum framlögum við innganginn.

Föstudagur 2. apríl

Kl. 14.00 Auður Lóa Guðnadóttir opnar sýningu í Kompunni

Auður Lóa Guðnadóttir er myndlistarmaður, sem leikur sér á landamærum hins hlutlæga og huglæga, skúlptúrs og teikningar, listar og veruleika. Hún vinnur markvisst með hversdagsfyrirbæri, fígúratíft, og myndmál sem hún sækir í forna jafnt og nýliðna sögu.
Auður Lóa útskrifaðist af myndlistarsviði Listaháskóla Íslands 2015. Síðan þá hefur hún starfað sjálfstætt og í samstarfi við aðra listamenn, og tekið þátt í sýningum eins og Leikfimi í Safnasafninu, Djúpþrýstingur í Nýlistasafninu og 109 Kettir í Peysum í Ekkisens. Hún hlaut hvatningarverðlaun myndlistarráðs 2018 fyrir sýninguna Díana, að eilífu. Hún opnaði nýverið einkasýninguna Já / Nei í D-sal Listasafns Reykjavíkur.

Þann 2. apríl 2021 býður Auður Lóa gestum Alþýðuhússins í fermingarveislu. Þar verður gestum boðið að njóta þekktra birtingarmynda úr sögum íslenskra fermingarveisluhefða. Kransakakan og brauðtertan eiga í samtali við saltstangir og sígarettur, en óljóst er hvað fer þeirra á milli.

Kl. 15.00 Arna Guðný Valsdóttir opnar sýningu í Herhúsinu

Misty - eftir minni
Sönggjörningur - kona, gluggi og myndbandstökuvél
Sviðið er rými í Listagilinu sem um tíma var vinnustofa Öllu. Það var síðar nýtt sem Salur Myndlistarfélagsins á Akureyri en er ekki lengur til í því formi sem var. Í dag hefur því verið breytt og er hluti Listasafnsins á Akureyri.
Gjörninginn flutti ég kvöld eitt árið 2015 fyrir tökuvélina mína sem ég lagði frá mér á gólfið þannig að glugginn sem einkenndi rýmið teiknaði myndflötinn. Ég kom mér fyrir inni í myndinni og sönglaði eftir minni gamla ameríska standardinn Misty.
Arna G. Valsdóttir (f. 1963 ) lauk námi frá Jan Van Eyck Academie í Hollandi árið 1989. Býr og starfar á Akureyri. Hefur sýnt víða bæði hérlendis og erlendis. Verk hennar byggja iðulega á myndbandstökum og myndvörpun og oft nýtir hún eigin söngrödd í verkin. Arna er forsvarsmaður Vídeólistahátíðarinnar heim sem hún hefur staðið fyrir á heimili sínu frá árinu 2015.


Kl. 16.00 Tara Njála Ingvarsdóttir og Silfrún Una Guðlaugsdóttir- gjörningur

Tara Njála Ingvarsdóttir og Silfrún Una Guðlaugsdóttir hafa unnið og pússað stígvélin sín saman sem tvíeykið Tara og Silla síðan þær hófu fyrst samstarf árið 2018 í myndlistarnámi við Listaháskóla Íslands. Tvíeykið vinnur aðallega með gjörninga, innsetningar og skúlptúra. Megin þemu í verkum þeirra eru leikgleði, samskipti, töfrar og vinátta. Tvíeykið hefur tekið þátt í mörgum samsýningum, haldið einkasýningu saman í sýningarrými Listaháskólans, rekið farandgalleríið Vatnshelda Galleríið og skipulagt listahátíð á Neskaupstað undir nafninu Stálsmiðjan undanfarin þrjú ár. Vefsíða: taraogsilla.cargo.site
 
Þangað til næst! // Until next time!
Nú höldum við af stað í risa ævintýri, vinirnir
tveir. Þangað til næst!
Now we are off on a really big adventure,
just us two and the sky. Until next time!

Kl. 16.30 Hlé

kl. 16.45 Hallgrímur Helgason og Rodrigo Lopes trommur. - gjörningur

Hallgrímur Helgason er myndlistarmaður og rithöfundur. Hann hefur haldið yfir 30 einkasýningar og verk hans eru í eigu safna heima og erlendis. Hann hefur gefið út tíu skáldsögur, fjórar ljóðabækur og einnig þýtt tvö Shakespeare-verk auk fleiri leikverka. Tvær bóka hans hafa verið kvikmyndaðar, og fjórar settar á svið, heima og erlendis. Hann hefur tvívegis hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin og í þrígang verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlanda. Hallgrímur var á dögunum sæmdur heiðursorðu franska ríkisins, “Officier de l’Ordre des arts et des lettres”, við athöfn í franska sendiráðinu í Reykjavík.
 
Bókin “Við skjótum títuprjónum” kom út í september 2020, og inniheldur eitt samfellt ljóð í 23 köflum, heimsádeiluljóð um stöðu samtímans, sem ort var á árunum 2016-2020. Á meðan vandar heimsins hlaðast upp fyrir dyrum Vesturlanda bregðast þau við með afneitun og múgheimsku. Flóttamenn farast í Miðjarðarhafi, þriðji heimurinn er þræll hins fyrsta og hamfarahlýnun eykst á meðan kynþáttahatur og einangrunarhyggja blómstra heima við. Við höldum lífi okkar áfram óbreyttu og látum okkur nægja að mótmæla með læk-takkanum. Við skjótum títuprjónum. “Við skjótum títuprjónum” var valin “Ljóðabók ársins 2020” af bókmenntagagnrýnendum Morgunblaðsins.

Laugardagur 3. apríl 

Kl. 14.00 Auður Lóa Guðnadóttir sýnir í Kompunni (Sjá lýsingu fyrir ofan.)

Kl. 14.00 Arna Guðný Valsdóttir sýnir í Herhúsinu (Sjá lýsingu fyrir ofan).

Kl. 16.00 Starkaður Sigurðarson - kynning á tímaritinu Myndlist á Íslandi.

Starkaður Sigurðarson hefur bakgrunn bæði í myndlist og skrifum. Eftir útskrift úr Listaháskólanum með B.A. próf af myndlistarbraut kláraði hann M.F.A. gráðu í ritlist frá Goddard College í Vermont. Hann starfar aðallega við skrif, ritstjórn og sýningarstjórnun, en er einnig myndlistarmaður. Auk þess að vera stundakennari í Listaháskóla Íslands þá hefur hann skrifað fjölda texta fyrir listamenn og söfn, sem og myndlistarumfjöllun fyrir ýmsa miðla. Starkaður er ritstjóri myndlistarritsins Myndlist á Íslandi sem kemur út árlega í prenti á bæði íslensku og ensku, og er einn stofnandi Röstin Gestavinnustofu á Langanesi. Starkaður situr í stjórn SÍM, KÍM, og Safnasafnsins.
 
Starkaður Sigurðarson verður með stutt erindi um nýju útgáfuna Myndlist á Íslandi. Þar kynnir hann blaðið, þróun þess og framtíðaráform. Starkaður er ritstjóri blaðsins en með honum í ritstjórn sitja Sunna Ástþórsdóttir og Katrín Helena Jónsdóttir. Saman unnu þau áður að myndlistarritinu Stara sem Samband íslenskra myndlistarmanna gaf út, en Myndlist á Íslandi þróaðist út frá þeirri útgáfu. Auk SÍM koma nú að útgáfu blaðsins Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, myndlistadeild Listaháskóla Íslands, Myndlistarráð og Listfræðafélag Íslands.
Blaðið verður til sýnis, einnig verður hægt að kaupa eintak sem og að skrá sig í áskrift.

Kl. 16.45 Hlé

Kl. 17.00 Sjón rithöfundur - upplestur 

Sigurjón Birgir Sigurðsson betur þekktur sem Sjón er einn af þekktustu nútíma rithöfundum Íslands. Hann hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir skrif sín og opinberar viðurkenningar, nú nýverið sæmdur Franskri heiðursorðu lista og bókmennta. 
Sjón mun lesa: 
"Blek – ritgerð eftir Val Sveinsson sendifulltrúa".
Sagan gerist í London árið 1952 og segir frá undarlegum fyrirbærum dagana
sem borgin var hulin mestu mengunarþoku í sögu Bretlandseyja.

Kl. 21.00 Óskar Guðjónsson, Pétur Grétarsson og Kjartan Valdimarsson.   Tónleikar

Pétur Grétarsson trommur, gjöll og slagverk.
Kjartan Valdemarsson píanó, hljómborð og synthar.
Óskar Guðjónsson sópran og tenor saxofónn.

Skúrinn

Hvenær er lag lag? Hvenær er ólag á lagi? Hvenær trompar spilagleðin innihaldið? Þarf að vera lag?
Þetta tríó - sem hittist vikulega til að máta tjáninguna utan sem innan forms og hefða - er skipað þremenningum sem hafa músíserað saman og í sundur - við nánast allar hugsanlegar kringumstæður. Í skúrnum - í þrírúmi - opnast kvikan og hið sanna eðli kemur í ljós. Eðlislæg tónlist er ekki endilega sú sem blandast meginstraumnum best og þetta tríó er ekki líklegt til að fylla dansgólf héraðsmótanna. En ef engin er forvitnin stöðvast orkuverið í fljóti meðalmennskunnar.
Straumurinn sem við virkjum er uppsafnaður kraftur úr mismunandi músíkstússi. Úr verður orka sem þarf að veita aftur inn í dreifikerfið.
 
Hvenær er lag lag? Hvenær er ólag á lagi? Hvenær trompar spilagleðin innihaldið? Þarf alltaf að vera söngur? Verður þetta í lagi?

Sunnudagur 4. apríl

Kl. 14.00 Auður Lóa Guðnadóttir sýnir í Kompunni (Sjá lýsingu fyrir ofan).

Kl. 17.00 Edda Björk Jónsdóttir og Þórir Hermann Óskarsson - flytja sönglög Jórunnar Viðar.

Jórunn Viðar var eitt af helstu íslensku tónskáldum á 20. öldinni og eftir hana liggur mikill fjöldi tónverka. Jórunn er þekktust fyrir sönglögin sín, og af mörgum er Jórunn talin eitt mesta ljóðatónskáld okkar Íslendinga.
 
Edda Björk Jónsdóttir sópran er fædd í Reykjavík 1987. Hún lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 2007 og BA í þroskaþjálfafræðum frá Háskóla Íslands 2014. Edda Björk hóf tónlistarnám einungis 6 ára að aldri við Tónlistarskólann í Kópavogi. Þar lærði hún á þverflautu og spilaði hún auk þess með Skólahljómsveit Kópavogs undir stjórn Össurar Geirssonar í mörg ár. Árið 2007 hóf Edda Björk söngnám, fyrst í Söngskólanum í Reykjavík og síðar meir í Söngskóla Sigurðar Demetz. Helsti söngkennari hennar var Dóra Reyndal og lauk Edda Björk burtfararprófi undir hennar handleiðslu árið 2015. Edda Björk stundar nú nám í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands. Edda Björk hefur auk þess starfað sem útsetjari og tekið að sér ýmis verkefni fyrir kóra og minni sönghópa.
 
Þórir Hermann (f. 1994) er klassískur píanóleikari og tónskáld. Þórir lærði píanó-, gítar- og klarínettuleik frá unga aldri í Englandi, en seinna fluttist hann til Íslands og útskrifaðist með burtfararpróf í klassískum píanóleik og tónsmíðum frá FÍH og Tónlistarskólanum í Reykjavík. Síðar stundaði hann tónsmíðanám við Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Atla Ingólfssonar. Þrátt fyrir klassíska menntun Þóris sækir hann innblástur úr ýmsum stefnum, þar á meðal er jazz, prógressívt rokk, popp, elektróník og þjóðlagatónlist. Þórir hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum og samið verk fyrir lúðrasveitir, kóra, strengi og píanó auk fjölda útsetninga.
 

Dagskráin til útprentunar