Leikfélag Fjallabyggðar bæjarlistamaður 2014

Leikfélag Fjallabyggðar
Leikfélag Fjallabyggðar
Formleg útnefning á bæjarlistamanni Fjallabyggðar fyrir árið 2014 fór fram í Menningarhúsinu Tjarnarborg í gær. Líkt og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni hlaut Leikfélag Fjallabyggðar útnefninguna. Í greinargerð með tilnefningunni sagði m.a. annars; 
"Leikfélagið sýndi okkur á síðasta ári hvers við erum megnug þegar við störfum saman í sátt og samlyndi og er okkur, bæjarbúum Fjallabyggðar, til fyrirmyndar hvað varðar góða og árangursríka samvinnu.  Sameining Leikfélags Ólafsfjarðar og Leikfélags Siglufjarðar var vel heppnuð og úr varð sterkara og fjölmennara leikfélag sem skilaði af sér góðu verki á síðasta ári undir öryggri stjórn Guðmundar Ólafssonar, sem jafnframt skrifaði verkið. Verkið var sýnt fyrir fullu húsi í Tjarnarborg aftur og aftur og þótti svo gott að það var valið það áhugaverðasta hjá áhugamannaleikfélagi á landinu og var leikfélaginu boðið að setja sýninguna upp í Þjóðleikhúsinu. Var það stór stund fyrir áhugaleikara á landsbyggðinni að standa á fjölum Þjóðleikhússins."

Á þessu ári mun Leikfélag Fjallabyggðar endurnýja kynni sín við Guðmund Ólafsson, leikara, leikstjóra og rithöfund og hefur hann skrifað nýtt verk sérstaklega fyrir leikfélagið. Verður það verk sett upp fyrri hluta árs og mun Guðmundur leikstýra sem fyrr. Verður spennandi að sjá hvernig til tekst hjá þessum samhenta hópi að þessu sinni.
Það var Guðrún Unnsteinsdóttir varaformaður markaðs- og menningarnefndar sem afhenti viðurkenninguna og var það formaður leikfélagsins Þuríður Sigmundsdóttir sem tók við viðurkenningunni.



Þuríður Sigmundsdóttir formaður leikfélagsins tók við viðurkenningunni úr höndum Guðrúnar Unnsteinsdóttur.

 
Leikfélag Fjallabyggðar þakkaði fyrir sig með söng úr leikritinu "Stöngin inn".


Þórarinn Hannesson bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2013 flutti ávarp.


Amelía Þórarinsdóttir nemandi við Tónskóla Fjallabyggðar  söng við athöfnina. Faðir hennar Þórarinn Hannesson lék undir.


Hörður Ingi Kristjánsson, nemandi við Tónskóla Fjallabyggðar lék á píanó fyrir gesti.


Þórey Hekla Ægisdóttir nemandi við Tónskóla Fjallabyggðar söng.
(Myndir: Gísli Kristinsson).