Kveðja frá fráfarandi bæjarstjóra

Kæru íbúar Fjallabyggðar

Það hafa verið sannkölluð forréttindi að starfa sem bæjarstjóri Fjallabyggðar sl. tvö og hálft ár og fá að kynnast enn betur því öfluga atvinnulífi, menningarstarfi, íþróttastarfi og félagslífi sem hér þrífst.

Starf bæjarstjóra hefur verið ákaflega fjölbreytt og gefandi, snertifletirnir við mannlífið í Fjallabyggð margir og verkefnin af ýmsum toga. Öll hafa verkefnin miðað að því að styrkja innviði í Fjallabyggð, stuðla að öflugri uppbyggingu, hlúa að góðum lífsgæðum íbúa, halda þjónustustigi sem bestu, sýna ábyrgð í rekstri og styðja stofnanir og starfsfólk bæjarins í því að gera gott bæjarfélag enn betra.

Ég þakka íbúum Fjallabyggðar og öllu því góða samstarfsfólki sem starfar hjá sveitarfélaginu fyrir einstaklega gott samstarf.

Megi árið 2025 verða gjöfult, gott og hamingjuríkt.

Sigríður Ingvarsdóttir