16.03.2005
Félagsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum, sem felur í sér að atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga fari fram laugardaginn 8. október 2005.Samkvæmt tillögu sameiningarnefndar, sem félagsmálaráðherra skipaði haustið 2003 til að gera tillögur um sameiningu sveitarfélaga, og að höfðu samráði við sveitarstjórnarmenn víða um land er í frumvarpinu lagt til að atkvæðagreiðsla um sameiningartillögur fari fram laugardaginn 8. október 2005 í stað 23. apríl n.k. Ástæðan fyrir því að færa þarf kjördag fram til haustsins er tvíþætt. Annars vegar tók lengri tíma en gert var ráð fyrir að ná samkomulagi í tekjustofnanefnd um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og því hefur dregist að sameiningarnefnd kynni endanlegar tillögur sínar. Er nú ljóst að ekki er nægur tími til stefnu til að tillögurnar geti hlotið nægilega kynningu og umfjöllun í viðkomandi sveitarfélögum fyrir kjördag. Hins vegar er ástæðan sú að undirbúningur atkvæðagreiðslu um tillögur sameiningarnefndar er kominn misjafnlega vel á veg á einstökum svæðum.Af fréttavef Félagsmálaráðuneytis.