Laugardaginn 8. október kl. 14.00 opnar Loji Höskuldsson sýningu í Kompunni Alþýðuhúsinu á Siglufirði, sem ber yfirskriftina Tveir pottar mjólk.
Sýningin er opin daglega frá kl. 14.00 - 17.00 til 23. október. Listamaðurinn verður á staðnum á opnunardaginn og tekur á móti gestum.
Tveir pottar mjólk
Ferjan mallar inn höfnina og hallar sér hljóðlega upp að bryggjunni um það leyti sem frystihúsbjallan hringir inn hádegishléið. Þegar síðasti farþeginn er stiginn frá borði stekkur afi á hjólið og svigar framhjá sígjammandi mannmergðinni sem lekur út úr frystihúsinu á leið heim í mat.
Ég sest við enda eldhúsborðsins á meðan amma hrærir skyrið. Það er eins gott að tryggja sér sæti strax því senn verður friðurinn úti og útvarpsfréttirnar drukkna í skarkalanum og fiskilyktinni sem situr föst í flíspeysunum sem fljótlega fylla húsið. Við eldhúsborðið þurfa handtökin að vera snör þar sem borðað verður í tveimur hollum. Svenni frændi sest við hinn enda borðsins og hámar í sig kaldar fiskibollur frá kvöldinu áður. Jóna ristar fléttubrauð til að hafa með baunasalatinu. Eva frænka grípur Royal búðinginn úr ísskápnum á leið sinni að borðinu og Gylfi slafrar í sig skyrinu. Afi sest við endann á bekknum og sker niður kalda sperla með smjörklípu sem hann stingur upp í sig á meðan hann hlustar á nýjasta slúðrið úr frystihúsinu. Hann er ekkert að fara í bráð svo Arnór bróðir skríður undir eldhúsborðið til að stytta sér leið frá borðinu. „Sssshhh‟ hvín í eggjasjóðaranum svo ég stekk til og næ í kavíarinn. Pabbi rífur soðið brauðið ofan í dísætt kaffið sitt og færir sig inn í stofu. „Á ég ekki að hræra meira skyr?‟ spyr amma þegar seinni umgangurinn týnist inn í eldhús.
Eftir að síðasti spónnin hefur verið sleiktur skálunum og fylkingarnar farnar að streyma niður í frystihús á ný fleygir afi sér í sófann og hvílir augun fram að næstu erjuferð og amma hefst handa við að ganga frá eftir herlegheitin. Að lokum kallar hún í mig og sendir mig niður í búð fyrir sig að kaupa meira skyr og tvo potta mjólk til að eiga til morguns.
Verk Loja Höskuldssonar segja sögur. Mismunandi sögur. Sögur sem rifjast upp fyrir hverjum og einum við áhorf verkanna. Sagan hér að ofan rifjaðist upp fyrir mér þegar ég leit yfir verkin á sýningunni og eitthvað allt annað mun rifjast upp fyrir öðrum þeim sem bera hana augum. Blómafernurnar hennar Kristínar Þorkelsdóttur eru miðpunktur sýningarinnar og ekki bara fagurfræðin í hönnun þeirra heldur sagan sem þær segja sýningargestum. Minningarnar sem rifjast upp. Hversdagsleikinn. Og nístandi þáþráin. Því verk Loja eru ekki einungis kyrralífsmyndir af blómum. Þau eru fyrst og fremst um fólk.
Textinn er eftir Sigmann þórðarson.
Loji Höskuldsson, 1987, Reykjavík, Ísland. Útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Í myndlist sinni Kannar Loji hefðbundnar og nýjar leiðir í útsaumi, tækni sem hann hefur þróað útfrá mömmu sinni en hún er atvinnusaumakona og útsaumssnillingur. Í útsaumi Hans er viðfangsefnið fengið úr hversdagsleikanum; plöntur, ávextir og hlutir sem finnast á heimilum.
Loji Höskuldsson (b. 1987) is an Icelandic artist based in Reykjavík, Iceland. His visual art primarily explores new and traditional ways of embroidery, a technique he inherited from his mother who is a professional seamstress and embroidery expert. In his embroidery, Loji most often depicts a sort of still life with focus on everyday objects, plants and fruits. He explores subtle, poetic situations in our domestic lives with a unique blend of irony and sincerity. His works are humorous and playful, elevating seemingly tedious elements of sewing and craftwork to a place of joy and personal connection.
Loji graduated from the Iceland Academy of the Arts in 2010. Recent solo exhibitions include Safnasafnið in Akureyri (2021), Ásmundarsalur (2019), and Hverfisgallerí (2019). In 2021 Loji is publishing a book on his documentation of Icelandic architect Sigvaldur Thordarson. In his ongoing research on Icelandic modernist architecture he documents Thordarson’s works, traveling across Iceland with a photographer and simultaneously posting on an Instagram page which he manages. Loji is also an active musician, performer and writer – he has played music various Icelandic bands at numerous music festivals in Iceland and abroad, and has written two radio plays that were broadcast live in the Reykjavik Art Museum in 2010 and by the Icelandic National Radio Station (RUV) in 2015.
Uppbyggingasjóður, Fjallabyggð, Aðalbakarí, Norðurorka og KEA styðja við menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.