Afhending klippikorta fyrir gámasvæði Fjallabyggðar er hafin. Hægt er að nálgast klippikort á bæjarskrifstofu Fjallabyggðar Siglufirði og í afgreiðslu Bókasafns Fjallabyggðar Ólafsvegi 4, Ólafsfirði.
Sala klippikorta mun þó einungis fara fram á bæjarskrifstofu Fjallabyggðar Siglufirði.
Íbúar og sumarhúsaeigendur fá afhent eitt kort á ári sér að kostnaðarlausu en rekstraraðilar þurfa að greiða kr. 30.730.- fyrir kortið.
Ekkert þarf að greiða fyrir ógjaldskyldan úrgang en klippt verður fyrir allan gjaldskyldan úrgang. Hvert klipp gildir fyrir 0,25 m3. Á hverju korti eru 16 klipp, sem duga samtals fyrir 4,0 m3 en klippikort fyrir sumarhúsaeigendur eru með 8 klipp svo þau kort duga fyrir alls 2,0 m3 af gjaldskyldum úrgangi.
Að öllu jöfnu ætti hvert kort að duga út árið. En ef kort klárast er hægt að kaupa aukakort á skrifstofum sveitarfélagsins. Hvert aukakort kostar kr. 12.640.- fyrir árið 2020.
Áríðandi er að skoða vel hvaða flokkar eru gjaldfrjálsir og hverjir gjaldskyldir. Sé sorpið flokkað til samræmis við það endist kortið lengur. Góð flokkun miðar að því að sem mest fari í endurvinnslu og eins lítið og mögulegt er til förgunar. Með því að flokka vel stuðlum við að umhverfisvernd og göngum í áttina að sjálfbærara samfélagi.
Mikilvægi flokkunar
Með flokkun til endurvinnslu minnkar magn þess úrgangs sem endar í urðun. Þannig er umhverfið verndað samhliða því sem förgunargjöld lækka fyrir sveitarfélagið.
Megnið af því efni sem kemur inn á gámasvæðið er endurnýtt með einum eða öðrum hætti. Þannig er úrgangi breytt í verðmæti og fyrir skil á slíkum úrgangi þarf ekki að greiða. Fyrir annað efni, sem þarfnast sérstakrar meðhöndlunar, þarf að greiða fyrir.
Með því að flokka rétt er komið í veg fyrir sóun verðmæta og tryggt er að eingöngu sé greitt þegar við á.
Klippikortið hjálpar
Tilgangur:
Gera flokkun markvissari og að kostnaður sé greiddur af þeim sem til úrgangsins stofnar.
Góð ráð:
Best er að flokka farminn áður en komið er á gámasvæðið. Ef úrgangur kemur blandaður saman (gjaldskylt og ógjaldskylt) þarf að greiða fyrir allan úrganginn.
Munum alltaf eftir kortinu:
Klippikortið veitir aðgang að svæðinu og þarf því alltaf að taka með, þó að eingöngu sé um endurvinnanlegan úrgang að ræða.
Bæklingur til lestrar og útprentunar (pdf)