Kláfferja á Múlakollu

Eitt af þeim verkefnum sem hlutu verðlaun í nýsköpunarsamkeppninni Ræsing í Fjallabyggð var verkefnið Kláfferja á Múlakollu. Höfundur verkefnis er Helgi Jóhannsson viðskiptafræðingur Ólafsfirði.

Um verkefnið:
Um er að ræða kláfferju til farþegaflutninga upp á fjallið Múlakollu við Ólafsfjörð. Áætlað er að hún verði u.þ.b. 2 km. að lengd, með tveimur vögnum sem hvor um sig tekur rúmlega 30 manns og það muni taka 6 - 8 mínútur að ferðast með henni uppá kolluna. Útsýni af toppi Múlakollu er frábært, séð er yfir hrikalegu fjöll Tröllaskagans, inn Eyjafjörðinn, Hrísey,  norður að Grímsey og tröllið í norðri, Hvanndalabjarg, sem er hæsta standberg við Íslandsstrendur.
Neðri stöðin verður í 150 metra hæð yfir sjávarmáli og sú efri í 900 metrum. Ætlunin er að ferja fólk allt árið um kring og boðið verður uppá sérstakar miðnætursólarferðir að sumri og svo norðurljósaferðir um haust og vetur. Stofnkostnaður er áætlaður rúmur 1 milljarður.

Kláfur á Múlakollu
Myndin sýnir fyrirhugaða legu kláfsins upp á Múlakollu