Laugardaginn 3. febrúar nk. kl.15:00 opnar Jón B. K. Ransu sýninguna Djöggl í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Á sýningunni Djöggl dregur Jón B. K. Ransu málaralist og fjölleika saman í samtal á ný þar sem hringformið spilar aðalhlutverk í rýmislistaverki í Kompunni í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Listaverk Ransu byggja öllu jafnan á endurskoðun listaverka eða liststefna sem skráð hafa verið í alþjóðlega listasögu. Sýningin Djöggl er engin undantekning á því en Ransu sækir þar í brunn mínimalisma sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar og skoðar hið óhlutbundna nauma form í tengslum við athöfn eða gerning.
Jón B. K. Ransu er myndlistarmaður menntaður í Hollandi á árunum 1990-1995. Þar af var hann í skiptinámi við NCAD (National College of Art and Design) í Dublín í eina aönn. Þá tók Ransu þátt í ISCP (International Studio and Curatorial Program) í New York árið 2006 og hlaut þá styrk úr sjóði The Krasner Pollock Foundation.
Uppbyggingarsjóður, Fjallabyggð og Egilssíld styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.