Jólaljósin tendruð á jólatrénu í Ólafsfirði við hátíðlega athöfn

Barnakór syngur
Barnakór syngur

Jólaljósin voru tendruð á jólatrénu í Ólafsfirði við hátíðlega athöfn sl. laugardag kl. 16:00.

Kirkjukór Ólafsfjarðar sögn hugljúf jólalög. Linda Lea Bogadóttir, markaðs- og menningarfulltrúi flutti ávarp og börn úr leikskólanum Leikhólum og tónlistarskólanum sungu hress og skemmtileg jólalög af mikilli innlifun. Kjartan Ólafur Sindrason, 5 ára nemandi leikskólans var svo fenginn til að tendra ljósin á jólatrénu, sem sótt hafði verið úr Kjarnaskógi í Eyjafirði.

Mikil gleði braust út meðal barnanna þegar nokkrir galvaskir jólasveinar komu þrammandi ofan hæðina með fulla poka af mandarínum. Dönsuðu þeir kringum jólatréð með börnum og fullorðnum. 

Við sendum bestu jólakveðjur héðan úr Fjallabyggð til þeirra bæjarbúa sem ekki áttu kost á því að vera með okkur.

Fjallabyggð þakkar þeim fjölmörgu, bæði stórum og smáum sem komu að undirbúningi og framkvæmd þessarar gleðilegu jólastundar.