Jóhann K. Jóhannsson
Mynd: Facebook
Jóhann K. Jóhannsson hefur verið ráðinn slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar
Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á 199. fundi sínum þann 17. mars sl. að ráða Jóhann K. Jóhannsson í starf slökkviliðsstjóra Fjallabyggðar. Alls bárust þrjár umsóknir um starfið en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka.
Jóhann starfaði sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður frá árinu 2005-2013. Hann öðlaðist löggildingu sem sjúkraflutningamaður árið 2003 og tók EMT-I 2009. Þá öðlaðist hann löggildingu sem slökkviliðsmaður árið 2010. Lengst af starfaði hann hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og hjá Brunavörnum Árnessýslu. Jóhann var um tíma slökkviliðsstjóri Brunavarna Austur-Húnvetninga.
Jóhann breytti um starfsvettvang og fór í fjölmiðla árið 2013 og hefur starfað sem fréttamaður á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni frá 2016. Á síðasta ári fékk hann leyfi frá störfum til þess að annast upplýsingamiðlun fyrir almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og er því verkefni nýlokið.
Jóhann er giftur Arnhildi Evu Steinþórsdóttur og eiga þau fjögur börn á aldrinum 2ja-20 ára.
Jóhann mun hefja störf 6. apríl.
Bæjarstjórn óskar nýjum slökkviliðsstjóra til hamingju með starfið um leið og bæjarstjórn þakkar starfandi slökkviliðsstjóra fyrir vel unnin störf ásamt því að þakka liðlegheitin í því millibilsástandi sem uppi hefur verið frá því að hann óskaði eftir starfslokum.