Íbúum Fjallabyggðar fækkar

Íbúum í Fjallabyggð fækkaði um 25 á fyrri helmingi ársins. Íbúum Norðurlands í heild fjölgaði hins vegar um 60 samkvæmt tölum Hagstofunnar um búferlaflutninga.
Íbúar fjölmargra sveitarfélaga á norðurlandi hafa horft upp á umtalsverða fólksfækkun á undanförnum árum , og sú þróun virðist halda áfram á flestum stöðum. Á tímabilinu frá 1. janúar til 30. júní fluttu 1116 manns frá norðlenskum sveitarfélögum á móti 1176 sem fluttu til sveitarfélaganna. Munurinn er sextíu manns. Mestu munar að sextíu og tveir fleiri fluttu til Akureyrar en frá.
Af öðrum stöðum sem þar sem varð fólksfjölgun má nefna að í Hörgárbyggð, þar fjölgaði um 30 manns, um 21 í Sveitarfélaginu Skagafirði, í Langanesbyggð fjölgaði um 17 manns og á Blönduósi fjölgaði um 14 manns.
En það var í fleiri sveitarfélögum en Fjallabyggð sem varð fólksfækkun. Það fækkaði um 20 í Eyjafjarðarsveit, 19 í Dalvíkurbyggð og 13 í Þingeyjarsveit.

Á öllu síðasta ári fækkaði íbúum Fjallabyggðar um 92 þannig að ætla má í ár verði fólksfækkun minni en á síðasta ár, sem auðvitað eru jákvæðar fréttir.