Á fundi bæjarráðs Fjallabyggðar þann 4. febrúar sl. var staðfest tillaga Markaðs- og menningarnefndar um ráðningu í starf forstöðumanns Bóka- og héraðsskjalasafns Fjallabyggðar.
Umsóknarfrestur um starf forstöðumanns Bóka- og héraðsskjalasafns Fjallabyggðar var til 10. janúar sl. og sóttu 11 um.
Tveir umsækjendur sem uppfylltu skilyrði um prófgráðu í bókasafns- og upplýsingafræðum voru boðaðir í starfsviðtal.
Annar þeirra afþakkaði boðið.
Starfsviðtal var tekið við Hrönn Hafþórsdóttur 24. janúar.
Fulltrúar sveitarfélagsins í viðtali voru skrifstofu- og fjármálastjóri, Ólafur Þór Ólafsson og forstöðumaður bóka- og héraðsskjalasafns, Sigríður Halldóra Gunnarsdóttir. Mæltu þau með því að Hrönn yrði ráðin og tók markaðs- og menningarnefnd undir það.
Hrönn, sem á ættir að rekja til Siglufjarðar, starfar nú sem deildarstjóri hjá Bókasafni Hafnarfjarðar. Hún mun taka við starfi forstöðumanns þann 1. mars nk.
Fjallabyggð býður Hrönn velkomna til starfa í Fjallabyggð.
Mynd: Hrönn Hafþórsdóttir