Hönnunarkeppnin Stíll

Hönnunarkeppnin Stíll fór fram í íþróttahúsinu Digranesi laugardaginn 21. janúar kl. 12-17. Þemað sem valið er af Ungmennaráði Samfés var í ár „Gylltur glamúr “. Á Stíl koma saman og keppa unglingar af öllu landinu í fatahönnun, hárgreiðslu, förðun, framkomu og hönnunarmöppu.

Markmið Stíls eru m.a. að hvetja ungt fólk til listsköpunar og um leið gefa þeim aukin tækifæri til frumlegrar hugsunar og sköpunarhæfileika.

Félagsmiðstöðin Neon tók þátt í Stíl eins og undanfarin ár og að þessu sinni voru fulltrúar Neons þær Tinna Hjaltadóttir og Eva María Merenda, nemendur í 8. bekk og Svava Rós Kristófersdóttir og Guðrún Ósk Auðunsdóttir, nemendur í 9. bekk. Tinna var erlendis í skíðaferðalagi þegar keppnin var haldin en tók þátt í öllum undirbúningi. Brynhildur Reykjalín Vilhjálmsdóttir var stúlkunum innan handar við undirbúning og fylgdi þeim á keppnina um síðustu helgi.

Fjallabyggð óskar þeim til hamingju með glæsilega hönnun og þátttöku í keppninni.

Myndir úr keppninni