Gönguvika 12. - 18. júlí með Ferðafélaginu Trölla

Í dag hefst gönguvika Ferðafélagsins Trölla. Farið er af stað virka daga frá UÍÓ húsinu á Ólafsfirði kl. 17:15 og um helgar er lagt af stað kl. 10:00.  
Heildarverð fyrir allar göngur er kr. 15.000 kr. og stakar göngur kosta kr. 2.000 virka daga og 3.500 um helgar. Árskort félaga gilda í allar göngur. Göngufólk sem er á Siglufirði og ætlar í göngur þaðan geta fengið pikk-up við Sigló Hótel kl. 17:35 eða mætt á upphafsstað sjálf/ur. Í boði er rútuferð til og frá sem kostar aukalega kr. 500-1.000 kr. 

Allar frekari upplýsingar um göngurnar og ferðatilögun veita Mæja í síma 663-2969 eða Harpa í síma 868-8853. Einnig er hægt að senda póst á ferdatroll@gmail.com

Fyrsta gangan er í dag mánudaginn 12. júlí um Siglufjarðarskarð. Gengið verður frá Hraunum í Fljótum um Siglufjarðarskarð til Siglufjarðar. Hér er um afar fallega og skemmtilega gönguleið að ræða sem tekur um 4 klukkustundir með akstri. Mesta hækkun leiðarinnar er um 600m í Siglufjarðarskarði. Gönguleiðin er um 10km og 2,5 skór af 5 í erfiðleikastigi.

 

Dagskrá Gönguviku 12 - 18. júlí 2021

12. júlí

Siglufjarðarskarð  Hraun í Fljótum - Skarðsdalur Siglufirði.

Afar falleg gönguleið og skemmtileg, tekur um 4 klst., með akstri til og frá. Mesta hækkun um 600m í Skarðinu. Gönguvegalengd 10km. Erfiðleikastig 2 skór (af 5 mögulegum)

13. júlí        

Fossdalur Ólafsfirði. 

Gengið frá Kleifum á Ólafsfirði eftir kindaslóðum að Bríkurvita og svo inn í Fossdalinn, létt og falleg leið. Vegalengd 9 km. Gangan tekur um 3  klst. Erfiðleikastig 1  skór.

14. júlí            

Dalaleið - Mánárdalur í Fljótum - Siglufjörður.

Keyrt inn fyrir Almenninga Siglufirði, gengið upp hrygg í Mánárdal svo eftir brúnum fjalla með dásamlegt útsýni yfir Siglufjörð og dali, farið niður frekar bratt gil við hesthúsin, mesta hækkun um 520m, tekur um 3 klst. og erfiðleikastig 2,5 skór af 5

15. júlí            

Gamli Múlavegurinn frá Ólafsfirði til Dalvíkurbyggðar.

ATH!   Ekki fyrir lofthrædda. Frekar brött leið á köflum þar sem vegur er farinn í sundur. 2,5 skór, tekur um 3 klst. Mesta hækkun um 400m upp á stóra plan þar sem sést vel til allra átta ef veður er bjart.

16. júlí        

Fossabrekkur  Kleifar Ólafsfirði – Héðinsfjörður.

 Keyrt fram að Kleifum gengið þaðan inn Syðriárdal sem er aðeins á fótinn, fjöllin há og reisuleg til beggja hliða. Í botni dalsins er svo gengið yfir tvær melöldur svokallaðar Fossabrekkur, yfir skarðið og ofan í Möðruvallaskál og þaðan ofan í Héðinsfjörð. Mesta hæð 680m, um 11 km og um 6-7 klst. ganga. Erfiðleikastig 2,5 skór (af 5 mögulegum)

17. júlí laugardagur

Hreppsendaársúlur Ólafsfirði.

Keyrt fram á heiði, gengið sem leið liggur upp á hrygginn sunnan Súlnanna og þaðan á Lundshnjúk og svo á Súlurnar. Gönguvegalengd um  7 km. Tekur um 4 klst. Mesta hæð 1050 m. Erfiðleikastig 3-3,5  skór (af 5 mögulegum)

18. júlí  sunnudagur

Hestskarð  Héðinsfjörður – Siglufjörður.

Farið er frá Skútudal í Siglufirði rétt fyrir innan gangamunnann, eftir hlykkjóttum slóða upp í skarðið sem er nokkuð bratt og er í u.þ.b. 500m hæð. Ef veður er gott og fólk tilbúið er hægt að ganga eftir klettabelti og upp á Hestskarðshnjúkinn sem stendur í 855m, eða farið bara beint ofan í Hestdalinn og niður í Héðinsfjörð. Gengið eftir kindaslóða að vegmunna. Ca 3-4 klst. leið og um 4km, erfiðleikastig 2-3 skór.