Glæsilegur árangur hjá Gunnlaugu

Myndina tók Hjörleifur Hjartarson
Myndina tók Hjörleifur Hjartarson
Lokaathöfn stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Dalvíkurkirkju á mánudag. Þar komu fram átta nemendur sem allir lásu mjög vel. Skáld keppninnar voru að þessu sinni Jón Sveinsson (Nonni) og Steinn Steinarr. Á lokahátíðinni komu saman þeir þrír nemendur 7. bekkjar sem þóttu standa sig best í undankeppni hvers skóla í Dalvíkurbyggð og Ólafsfirði.

Skólarnir skiptu með sér þremur efstu sætunum en úrslit voru eftirfarandi:

1. Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir, Grunnskóla Ólafsfjarðar
2. Hafsteinn Máni Guðmundsson, Dalvíkurskóla
3. Signý Jónasdóttir, Árskógarskóla

Keppninni er ætlað að, bæta almennan lesskilning, efla sjálfsvirðingu og virðingu fyrir öðrum og til hvatningar fyrir nemendur með lestrarerfiðleika

Keppnin fer fram á eftirfarandi hátt:
Sérhver skóli sem vill taka þátt í keppninni skráir sig í keppnina og gerist það strax að hausti, oftast nær i september. Þann 16. nóvember ár hvert, á degi íslenskrar tungu, er keppnin formlega sett. Þá leggja kennarar í 7. bekkjum sérstaka rækt við vandaðan upplestur og framsögn í bekkjum. Að lokinni þjálfun er haldin bekkjar/skólahátíð þar sem nemendur lesa upp frásögur og ljóð fyrir samnemendur og foreldra.
Tveir til þrír nemendur eru þá valdir sem fulltrúar skólans til að lesa á lokahátíð. Á lokahátíð er lögð mikil áhersla á hátíðlega athöfn með upplestri og tónlistaratriðum. Allir lesarar á lokahátíð fá bókaverðlaun og þrír fremstu fá að auki sérstaka viðurkenningu.