Fundur utanríkisráðherra Íslands og Finnlands á Siglufirði

Timo Soini utanríkisráðherra Finnlands er í opinberri heimsókn á Íslandi. Leið ráðherrans lá til Siglufjarðar í gær en fram fór tvíhliða fundur utanríkisráðherra Íslands, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Timo Soini í Bátahúsinu í morgun.

Helga Helgadóttir formaður bæjarráðs tók á móti utanríkisráðherrunum fyrir hönd Fjallabyggðar og færði Fjallabyggð þeim gjöf hannaða af Bæjarlistamanni Fjallabyggðar 2019 Hólmfríði Vídalín Arngrímsdóttur.

Ráðherrarnir heimsóttu einnig Genís hf. og Ramma hf. í morgun og fengu svo leiðsögn um Síldarminjasafnið að fundi loknum.

Eftir fundinn var ferðinni heitið til Akureyrar þar sem haldinn verður milli kl. 15:45 – 17:00 í dag opinn fundur í Háskólanum á Akureyri undir yfirskriftinni Samvinna og samræða um sjálfbærni: Formennska í Norðurskautsráðinu þar sem utanríkisráðherrar Finnlands og Íslands halda stutt erindi og taka þátt í samræðum um málefni norðurslóða.

Í heimsókn sinni til Íslands verða norðurslóðamál ofarlega á dagskrá. Auk tvíhliða fundar utanríkisráðherra Íslands og Finnlands hitti Soini forseta Íslands og heimsótti Alþingi þar sem hann fundaði með utanríkismálanefnd. Heimsókninni lýkur síðdegis á þriðjudag.