Við gerð fjárhagsáætlunar Fjallabyggðar fyrir árið 2017 var samþykkt að hækka frístundstyrk úr 9.000 kr. í 20.000 kr.
Í framhaldi af því voru reglur um frístundastyrki endurskoðaðar og helsta breyting á reglunum felur í sér áðurnefnda hækkun en í stað þess að geta nýtt 9.000 krónur til að greiða niður þrjár tómstundir er hægt að nýta 20.000 kr. til að niðurgreiða tvær tómstundir. Um næstu mánaðarmót verða því sendar út tómstundaávísanir (2 x 10.000 kr.) til þeirra forráðamanna sem eiga börn á aldrinum 4 - 18 ára.
Meginmarkmið frístundastyrkja er m.a. að öll börn og unglingar í Fjallabyggð geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.
Helstu reglur um notkun frístundastyrksins eru þessar:
⦁ Styrkurinn veitir foreldrum og forráðamönnum rétt til að ráðstafa ákveðinni upphæð á ári fyrir hvert barn. Skal sú upphæð ákveðin við gerð fjárhagsáætlunar ár hvert. Fyrir árið 2017 er upphæðin kr. 20.000. (2 x 10.000 kr.)
⦁ Sendar eru út tvær ávísarnir hver að upphæð kr. 10.000.- Ávísun er ekki heimilt að færa á milli ára og falla þær úr gildi í lok hvers árs.
⦁ Með ávísuninni má greiða fyrir skipulagt frístundastarf í Fjallabyggð hjá félagi/stofnun sem gert hefur samning við Fjallabyggð um notkun frístundastyrkja. Þetta á t.d. við um starfsemi viðurkenndra íþróttafélaga, æskulýðsfélaga, nám við tónlistarskóla, og fl.
⦁ Með ávísuninni má greiða kort í líkamsrækt og sund í íþróttamiðstöð Fjallabyggðar.
⦁ Með ávísuninni má greiða tónskólagjöld í Tónskóla Fjallabyggðar.
⦁ Með ávísuninni má greiða skíðapassa á skíðasvæðin í Fjallabyggð.
⦁ Með ávísuninni má greiða fyrir þátttöku í sérstökum samstarfsverkefnum eða námskeiðum sem hafa það að markmiði að ná til ófélagsbundinna barna og unglinga og virkja þau í skipulögðu félagsstarfi.
⦁ Með ávísuninni má greiða fyrir sérstakan viðbótarkostnað svo sem tæki og búnað, fatnað, ferðakostnað o.þ.h. svo framarlega sem slíkur kostnaður er innheimtur af félögum/stofnunum sem hafa gert samning við Fjallabyggð um notkun frístundastyrkja
⦁ Þegar foreldri eða forráðamaður hefur ráðstafað styrk til félags þá er ekki hægt að endurgreiða eða bakfæra.
⦁ Ráðstöfunarréttur fellur niður uppfylli barn ekki lengur skilyrði samkvæmt lið 2
⦁ Heimilt er að flytja frístundastyrk á milli systkina.
Nánari upplýsingar um reglurnar og hvar er hægt að nýta ávísanirnar má lesa hér.