Fréttatilkynningar frá Vatnsvarnarbandalaginu

Vatnstjón á heimilum og í fyrirtækjum nam á þriðja milljarði króna árið 2013 og varð langmestur hluti tjónsins á heimilum eða 84 prósent. Tryggingafélögin bæta tjónið að miklu leyti en ljóst er að heimilin bera verulegan kostnað af vatnstjóni. 
Annars vegar greiða þau hundruð milljóna króna í eigin áhættu en hins vegar er mjög algengt að vatnstjón reynist ekki bótaskylt. Tilkynnt var um vatnstjón 18 sinnum að meðaltali á dag, þar af voru að meðaltali fjögur tilvik ekki bótaskyld.

Þetta kemur fram í tölum tryggingafélaganna sem teknar voru saman af óháðum aðila fyrir samstarfshóp um varnir gegn vatnstjóni. Til samanburðar má nefna að brunatjón nam 1.239 milljónum króna í fyrra.

Þessar upplýsingar ásamt fleirum koma fram í fréttatilkynningum sem Vatnsvarnarbandalagið hefur sent frá sér.

Að Vatnsvarnarbandalaginu standa Félag dúklagninga- og veggfóðrarameistara, Félag pípulagningameistara, IÐAN fræðslusetur, Mannvirkjastofnun, Múrarameistarafélag Reykjavíkur, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök um loftgæði, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., TM hf., VÍS hf. og Vörður tryggingar hf.