Bæjarstjórn Fjallabyggðar lýsir þungum áhyggjum yfir þeim aðstæðum sem sköpuðust í Fjallabyggð og víðar á landinu þegar óveður gekk yfir fyrr í vikunni, þar sem rafmagns-, heitavatns-, útvarps- og fjarskiptakerfi virkuðu ekki sem skyldi og olli mikilli óvissu og óöryggi. Þetta eru algjörlega óboðlegar aðstæður í nútímasamfélagi þar sem allt byggir á tækni. Allir viðbragðsaðilar reiða sig á farsímakerfið þegar kemur að boðunum og þykir mildi að ekkert hafi komið upp á í þeim efnum. Í þeim aðstæðum sem upp komu var Fjallabyggð algjörlega einangruð og ekki hægt að sækja hjálp til nærliggjandi sveitarfélaga þar sem bæði Siglufjarðar- og Ólafsfjarðarvegur voru lokaðir vegna snjóflóðahættu, þurftu því viðbragðsaðilar alfarið sjálfir að leysa öll þau verkefni sem þessar aðstæður sköpuðu. Strax í upphafi rafmagnsleysisins gekk erfiðlega að nálgast eldsneyti vegna rafmagnstruflana og vegna tæknilegra vandamála í kerfi Olís beggja vegna ganganna sem olli erfiðleikum þegar leið á björgunarstörf.
Enn á eftir að meta það tjón sem varð af völdum langvarandi rafmagnsleysis og aftaka veðurs. Ofan á þá eyðileggingu sem óveðrið orsakaði var heilsu og eignum einstaklinga sem og verðmætum fyrirtækja stefnt í hættu.
Viðbragðsaðilum, fyrirtækjum og einstaklingum sem sinnt hafa björgunarstörfum undanfarna daga verður seint fullþakkað. Þessir aðilar hafa komið fólki til aðstoðar, komið á rafmagni og hita í Fjallabyggð ásamt því að tryggja fjarskiptasamband og unnið þrekvirki fyrir íbúa Fjallabyggðar og færir sveitarfélagið þeim bestu þakkir.
Mikinn lærdóm má draga af þessari stöðu. Dísilstöðvar sem voru varaafl fyrir Siglufjörð og Ólafsfjörð hafa verið aflagðar, en þær voru teknar niður vegna afhendingaröryggis sem koma átti með hringtengingu raforku, sem augljóslega brást í þessu veðri. Auk þess er óeðlilegt að varaaflsstöðvar fyrir fjarskiptakerfi viðbragðsaðila séu ekki fyrir hendi.
Það er skýlaus krafa Fjallabyggðar að til úrbóta verði gripið því ekki er hægt að una við óbreytt ástand.