Franska kvikmyndahátíðin sýnir myndir í Fjallabyggð.

Franska kvikmyndahátíðin
Franska kvikmyndahátíðin
Árlega er haldin frönsk kvikmyndahátíð í Reykjavík og er hátíðin annar stærsti kvikmyndaviðburður Íslands á eftir RIFF. Árlega sækja um 10.000 gestir frönsku kvikmyndahátíðina sem fagnaði sínu 14. sýningarári núna í janúar.  
Markmið hátíðarinnar er að sýna fjölbreytni og frumleika í franskri og frönskumælandi kvikmyndagerð. Frakkland, sem er sögulegur fæðingarstaður hreyfimynda, er í dag þriðji stærsti kvikmyndaframleiðandi heims á eftir Bandaríkjunum og Indlandi. Franska sendiráðið á Íslandi kemur að þessari hátíð ásamt Græna ljósinu og Háskólabíó, Institut français og Alliance française í Reykjavík.  Hafa framkvæmdaaðilar (Franska sendiráðið á Íslandi , Institut français og Alliance française í Reykjavík) nú ákveðið að sýna nokkrar myndir á Norðurlandi og er þetta er í fjórða sinn sem hátíðin er haldin á Akureyri. Að þessu sinni verður hátíðin einnig haldin í fyrsta sinn í Fjallabyggð. 
Sýningarnar verða alls þrjár og allar laugardaginn 15. mars. Tvær sýningar verða í Bláa Húsinu á Rauðkutorgi og ein mynd í Menningarhúsinu Tjarnarborg. Ókeypis aðgangur er á sýningarnar.

Sýningarnar verða sem hér segir:
Bláa Húsið kl. 14:00 - Starbuck. (Gaman mynd frá 2011). Mynd sem hefur unnið til níu verðlauna og með 14 tilnefningar á hinum ýmsu kvikmyndahátíðum.
David er 42ja ára en hegðar sér ennþá eins og óábyrgur unglingur. Hann siglir í gegnum lífið með minnstu mögulegu áreynslu og er í flóknu sambandi við Valerie, unga lögreglukonu. Á sama tíma og hún tilkynnir að barn sé á leiðinni, kemur fortíð hans upp á yfirborðið. Tuttugu árum áður stundaði hann þá iðju að selja sæði sitt til sæðisbanka. Hann uppgötvar að sökum þessa á hann nú 533 börn og þar af hafa 142 þeirra höfðað mál saman til að komast að því hver líffræðilegur faðir þeirra er, en þau þekkja hann eingöngu undir nafninu Starbuck. David er í losti og þarf nú að ákveða hvernig eigi að tækla barnshafandi kærustuna, vini, fjölskyldu og ekki síst 142 afkvæmi sem vilja vita hver hann er.


Sjá nánar hér.

Tjarnaborg kl. 16:00 - Les triplettes de Belleville (Þríburarnir frá Belleville)  
Gamanmynd - teiknimynd frá 2003. Tilnefnd til tveggja Óskarsverðlauna 2004. Mynd sem hefur hlotið fjölda viðurkenninga á mörgum kvikmyndahátíðum.
Ungum manni er rænt þegar hann keppir í Tour de France - hjólreiðakeppninni. Það vill svo til að hann er barnabarn frú Souza, sem leggur upp í mikla ævintýraför til að frelsa hann úr klóm ræningjanna. Með henni í för eru hundurinn Bruno og hinar öldruðu Belleville-systur, sem sjá fyrir sér endurhvarf til frægðar og frama fyrri tíma með söng sínum og dansi. 



Sjá nánar hér.

Bláa Húsið kl. 17:30 La Princesse de Montpensier (Prinsessan af Montpensier)
Mynd frá 2010 sem hefur fengið fjölda tilnefninga á kvikmyndahátíðum og unnið til nokkurra verðlauna.
Hún er með Lambert Wilson og Mélanie Thierry í aðalhlutverkum og er byggð á samnefndri ástarsögu eftir Madame de Lafayette, sem gerist á tímum trúarbragðastyrjalda í Frakklandi. 



Sjá nánar hér.

Allt um myndirnar verður finna á nýrri vefsíðu hátíðarinnar www.fff.is frá og með 11. mars.