Fræðslustefna Fjallabyggðar - til kynningar

Kraftur – Sköpun – Lífsgleði

Formáli

Í febrúar 2016 var ákveðið af fræðslu- og frístundanefnd að setja á laggirnar vinnuhóp til að koma að endurskoðun á Fræðslustefnu Fjallabyggðar sem samþykkt var af þáverandi bæjarstjórn árið 2009. Í vinnuhópnum hafa verið; Jónína Magnúsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar, Olga Gísladóttir skólastjóri Leikskóla Fjallabyggðar, Magnús Ólafsson skólastjóri Tónlistarskólans á Tröllaskaga, Lára Stefánsdóttir skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga, Kristín Brynhildur Davíðsdóttir kennari við Grunnskóla Fjallabyggðar, Vibekka Arnardóttir leikskólakennari og Sæbjörg Ágústsdóttir formaður fræðslu- og frístundanefndar. Starfsmaður vinnuhópsins var Kristinn J. Reimarsson deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála. Vinnuhópurinn hefur haldið fundi auk þess sem samvinna hefur farið fram á netinu. Haft var opið samráð við íbúa í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook þar sem settar voru fram spurningar og vangaveltur um skólamál í Fjallabyggð. Síðan var með mikinn lestur og athugasemdir við innleggin.

Fræðslustefnunni er ætlað að taka til allra þátta í uppeldis- og skólastarfi sveitarfélagsins. Stefnan tekur mið af markmiðum sem eru sett fram í aðalnámskám allra skólastiga ásamt ytra mati á Grunnskóla Fjallabyggðar frá upphafi árs 2016. Markmiðið er að skapa framtíðarsýn í málaflokknum og vera málefnalegur grundvöllur að ákvörðunartöku um skólastarf í sveitarfélaginu.
Fjallabyggð býr við þá sérstöðu að þar eru starfandi leik-, grunn- og framhaldsskóli ásamt tónskóla. Í því felast tækifæri til að auka menntunarstig samfélagsins og jafnframt sem leið í að tryggja íbúum farsæla búsetu þar sem leiðarljós nýrrar fræðslustefnu eru kraftur, sköpun og lífsgleði.

Drög að fræðsluustefnu Fjallabyggðar eru aðgengileg hér.