Frábær árangur Fjallabyggðar - Allir lesa

Úrslitin í Allir lesa 2017 ljós.

Þátttakendur lásu í samtals 43.567 klukkustundir, eða sem samsvarar um fimm árum! Liðakeppnin var æsispennandi að vanda og hafa fjölbreytt lið víðsvegar að af landinu raðað sér í efstu sætin. Í Fjallabyggð var meðallestur á þátttakenda heilar 49,4 klukkustundir, eða sem nemur rúmum tveimur sólarhringum á mann. Varð þessi frábæri árangur til þess að Fjallabyggð hafnaði í 2. sæti á eftir Strandabyggð.

Fjöldi vinnustaða keppti í landsleiknum og víða var bæði keppt í Allir lesa og Lífshlaupinu með því að fara út að ganga eða hlaupa með hljóðbók. Í flokki liða með 3-9 liðsmenn sigraði Stjórnsýsluhúsið í Búðardal. Starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga bar sigur úr býtum í flokki liða með 10-29 liðsmenn og liðið STALST (Lyfjastofnun) sigraði í fjölmennasta flokknum, með 30-50 liðsmenn.

Í opnum flokki kepptu önnur lið, til dæmis leshringir, saumaklúbbar, fjölskyldulið, skólalið og vinir. LiðiðVið sigraði í flokki liða með 3-9 liðsmenn og var einnig heildarsigurvegari landsleiksins. Lestrarhestar í Hagaskóla sigruðu í flokki liða með 10-29 liðsmenn ogyngsta stig Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri sigraði í flokki liða með 30-50 liðsmenn.

Það er skemmtilegt að lesa!

Allir lesa er landsleikur í lestri, með áherslu á orðið leikur. Tilgangurinn er fyrst og fremst að vekja athygli á því hversu skemmtilegt það er að lesa, hvort sem er einn eða með öðrum. Allir lesa snýst þannig ekki um lestrarhraða eða fjölda blaðsíðna heldur er takmarkið fyrst og fremst að hvetja landsmenn til að verja tíma í yndislestur. Með því að skrá inn að minnsta kosti 15 mínútur af lestri dag hvern vonumst við til þess að bóklestur komist inn í daglega rútínu og lesturinn verði að lífsstíl. Það er von okkar að með hvatningu og góðri lestrarbyrjun á árinu haldið þið, kæru lestrarhestar, áfram að njóta lestrar þrátt fyrir að landsleiknum sé lokið.