Forgangsröðun jarðganga í nýrri samgönguáætlun

Forgangsröðun jarðganga í nýrri samgönguáætlun

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, kynnti  þingsályktunartillögu sína um nýja samgönguáætlun fyrir tímabilið 2024 til 2038 á fréttamannafundi sem haldinn var í gær 13. júní 2023.

Með samgönguáætlun setja stjórnvöld fram stefnu og markmið fyrir allar greinar samgangna og skal áætlun lögð fram á að lágmarki þriggja ára fresti.

Innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hefur lagt fram þingsályktunartillögu um nýja samgönguáætlun sem hægt er að kynna sér inn á samráðsgátt stjórnvalda. Meðal þess sem fjallað er um í áætluninni er forgangsröðun um uppbyggingu jarðganga á Íslandi.

Lögð er til eftirfarandi forgangsröðun jarðgangna:

  1. Fjarðarheiðargöng
  2. Siglufjarðarskarðsgöng
  3. Hvalfjarðargöng 2
  4. Göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur
  5. Göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur
  6. Breiðadalsleggur, breikkun
  7. Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöng
  8. Miklidalur og Hálfdán
  9. Klettsháls
  10. Öxnadalsheiði

Í samgönguáætlun (bls.27) kemur fram varðandi jarðgangnaáætlun að gert er ráð fyrir um 420 millj. í undirbúning þessara tveggja gangna eða um 100 millj. í undirbúning Siglufjarðarskarðsgangna á árunum 2024 og 2025 og 150 millj. árið 2026. Eins er gert ráð fyrir samtals 70 millj. á árunum 2024-2026 í undirbúning gangna milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur.

 

Í áætluninni kemur fram að jarðgöng eru víða eina leiðin til að tryggja góðar heilsársvegasamgöngur milli byggða. Jarðgöng hafa stórfelld áhrif á tengingu atvinnusvæða, styrkja byggðaþróun og bæta umferðaröryggi. Mikilvægir jarðgangakostir eru um land allt þótt óhætt sé að fullyrða að þörfin sé brýnust á Vestfjörðum, Tröllaskaga og Austfjörðum. Fjármögnuð langtímajarðgangaáætlun, þar sem 14 mikilvægustu jarðgangakostir landsins koma til framkvæmda á næstu 30 árum í stað 80 til 100 ára, mun gjörbylta lífskjörum og styrkja til muna samkeppnishæfni landshluta með betra aðgengi að þjónustu.

Flýtiframkvæmdir um land allt, samkvæmt samgöngusáttmálanum, jarðgangaáætlun eða samvinnuverkefnunum, gera ráð fyrir að fjármögnun verði í heild eða að hluta með innheimtu veggjalda. Nánari útfærsla þeirrar innheimtu mun fara fram á vettvangi sameiginlegrar verkefnastofu innviðaráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Fjármögnun jarðgangaáætlunar er eitt af verkefnum í heildarendurskoðun tekjuöflunar af ökutækjum og umferð, eins og áður hefur komið fram. Stefnt hefur verið að hóflegri gjaldtöku vegna þessarar uppbyggingar sem nánar verður útfærð í samvinnu innviðaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis. Meðal þeirra kosta sem einnig koma til greina er að stofna sérstakt innviðafélag sem haldi utan um flýtiframkvæmdir og jarðgöng. Slíku félagi yrði lagt til eigið fé, til að mynda í formi samgönguinnviða, en til greina kæmi að það hefði vel skilgreindar heimildir til lántöku. Fjárveiting í þessari áætlun er til undirbúnings og rannsókna næstu þriggja jarðganga þannig hægt verði að fara í framkvæmdir á þeim í framhaldi af gerð Fjarðarheiðarganga.

Bæjarstjóri og bæjarstjórn Fjallabyggðar hafa beitt sér ötullega í því að koma sjónarmiðum sínum  á framfæri í forvinnu áætlunarinnar. Ánægjuefnið er að í nýrri áætlun er ekki eingöngu um að ræða að ný gögn úr Siglufirði yfir í Fljót eru nú í öðru sæti á listanum, heldur eru ný göng úr Ólafsfirði yfir á Dalvík nú komin í fjórða sæti forgangslistans. En í fyrri áætlun var einungis gert ráð fyrir að tvöfalda Múlagöng. Þetta er því gríðarlega stór áfangi fyrir sveitafélagið og nágranna þess.

Samgönguáætlun 2024-2038