Markmið laga nr. 160/2011, um svæðisbundna flutningsjöfnun, er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem eru með framleiðslu og lögheimili fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa þ.a.l. við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði.
Lögin gilda annars vegar um einstaklinga eða lögaðila sem stunda framleiðslu á vöru sem falla undir C-bálk íslensku atvinnugreinaflokkunarinnar ÍSAT2008 og hins vegar einstaklinga eða lögaðila sem framleiða með ræktun ávexti, blóm eða grænmeti og fullvinna framleiðslu sína í söluhæfar umbúðir enda falli framleiðslan undir flokk 01.1, ræktun nytjajurta annarra en fjölærra, og/eða flokk 01.2, ræktun fjölærra nytjajurta, í A-bálki íslensku atvinnugreinaflokkunarinnar ÍSAT2008 .
Opnað var fyrir umsóknir vegna flutninga ársins 2020 þann 1. febrúar 2021. Umsóknafrestur verður til og með 31. mars 2021. Athugið að um lögbundinn lokafrest er að ræða, ekki er tekið við umsóknum sem berast eftir þann tíma.
Hvenær er styrkurinn greiddur út?
Allar umsóknir verða greiddar út í einu, eins fljótt og auðið er. Mikilvægt er að vanda umsóknina til að flýta fyrir afgreiðslu.
Umsjón með framkvæmd laganna
Samkvæmt breytingu á lögum nr. 160/2011 um svæðisbundna flutningsjöfnun, sbr. lög nr. 128/2012, hefur Byggðastofnun verið falin umsjón með framkvæmd laganna.
Umsjónaraðili verkefnisins hjá Byggðastofnun er Hrund Pétursdóttir, flutningsjofnunarstyrkur@byggdastofnun.is
Nánar á heimasíðu Byggðastofnunar