14.03.2004
Stjórn Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði hefur samþykkt ályktun þar sem skorað er á Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra og samgöngunefnd Alþingis að beita sér fyrir því að áætlunarflug verði ekki lagt af til Sauðárkróks, líkt og Íslandsflug áformar.Frá Sauðárkróki hafa verið rútuferðir til Siglufjarðar í tengslum við flugið. Í ályktun Vöku segir að með áætlunarfluginu og rútuferðunum hafi tekist að halda uppi almenningssamgöngum við Siglufjörð."Margir félagsmenn í Vöku nýta sér þessa þjónustu og er þá rétt að nefna sérstaklega eldra fólk, sem er mjög margt í félaginu. Falli þessi þjónusta niður þá er Siglufjörður nær samgöngulaus við umheiminn, nema á einkabíl. Þetta myndi færa okkur áratugi aftur í tímann og valda bæjarbúum miklum óþægindum. Við teljum það algjöra nauðsyn að okkur verði tryggðar þessar flugsamgöngur þar til að við höfum möguleika á öðrum leiðum, með Héðinsfjarðargöngum og flugsamgöngum í gegnum Akureyri," segir í ályktun Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði.Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins munu sveitarstjórnarmenn á Siglufirði og í Skagafirði eiga fund með samgönguráðherra á næstu dögum þar sem flugið til Sauðárkróks verður til umræðu.