Fjölmenni í Tjarnarborg á fallegum fyrsta vetrardegi

Margt var um manninn í gær, fyrsta vetrardag, í Menningarhúsinu Tjarnarborg þar sem þrjár lista- og handverkskonur úr Fjallabyggð stóðu fyrir sýningunni Sköpun og verk.

Um 200 manns lögðu leið sína í Tjarnarborg en lista- og handverkskonurnar þær Arnfinna, Helena og Hulda voru með handverk sitt og list til sýnis og sölu.

Arnfinna Björnsdóttir bæjarlistamaður Fjallabyggðar var með sínar kunnu klippimyndir frá Siglufirði frá síldarárunum. Einnig tók Arnfinna með sér kertastjaka sem hún hefur verið að gera úr fjörugrjóti ásamt hekluðum hannyrðavörum. Mikil natni og kærleikur ríkir í sköpunarverkum Arnfinnu.

Helena Reykjalín Jónsdóttir saumakona er þekkt fyrir handverk sitt og hafa vörur hennar farið víða. Í vörulínu hennar er að finna vöggusett, húfur, svuntur og fleira sem notið hafa mikilla vinsælda. Einnig merkir hún handklæði, húfur og aðrar vörur sem tilvalið er að setja í jólapakkann. Helena leggur metnað sinn í að íbúar Fjallabyggðar sem og aðrir geti fengið góðar og hagnýtar vörur úr heimabyggð.

Hulda Gerður Jónsdóttir hannyrðakona er mikil umhverfissinni og hafa m.a. margnota innkaupapokarnir hennar farið víða. Hulda Gerður var einnig með til sýnis og sölu hinar ýmsu prjónavörur, klemmupoka, bútasaum, lopapeysur svo eitthvað sé nefnt.

Arnfinna Björnsdóttir

  Hulda Gerður Jónsdóttir  Helena Reykjalín Jónsdóttir