Fjölbreytt dagskrá í Alþýðuhúsinu

Mynd: Gunnlaugur S. Guðleifsson (Gulli Stebbi)
Mynd: Gunnlaugur S. Guðleifsson (Gulli Stebbi)

Sjómannadagshelgin er viðburðarík í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Nú stendur yfir sýning Kristjáns Guðmundssonar í Kompunni og tveir viðburðir verða 4. og 5. júní.

Laugardaginn 4. júní 2016 kl. 20:00 heldur Unnur Malín Sigurðardóttir sína fyrstu sólótónleika - (vinnu)stofutónleika í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Unnur Malín, raddlistamaður, tónlistarmaður og tónskáld.  Unnur Malín

Ein kona, ein rödd, einn gítar, eitt hljómborð.
Ein stök stund.
Ein ást.
Eins.

Unnur Malín (*1984) hefur fengist við tónlist frá unga aldri. Hún hefur verið meðlimur í mörgum og mismunandi tónlistarhópum, en helst má þar nefna reggae sveitina Ojba Rasta. Undanfarin misseri hefur Unnur Malín fengist við að semja tónlist og texta sem hún hyggst nú frumflytja. Listamaðurinn fer með áheyrendur í ferðalag um tónlendur huga og líkama með spuna í bland við skipulag. Lýrískt kaós, kaótísk lýrík.

Enginn aðgangseyrir en tekið er á móti frjálsum framlögum.

 

Sunnudaginn 5. júní kl. 15:30 verður sunnudagskaffi með skapandi fólki í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Gunnlaugur Guðleifsson mun flytja erindi um ljósmyndaáhuga sinn og þau störf sem hann hefur unnið á þeim vettvangi.

Gunnlaugur er búsettur á Siglufirði, hann starfar sem fjárhirðir hjá Arionbanka á Siglufirði.

Gunnlaugur hafði snemma áhuga á ljósmyndun og með starfi sínu sem fréttaljósmyndari fyrir sksiglo.is magnaðist áhuginn svo, að ekki var aftur snúið. Undanfarin ár hefur hann varið töluverðum tíma í tilraunir með ljósmyndavélina að vopni. Hann hefur sýnt afraksturinn í Bláa húsinu hjá Rauðku á Siglufirði. Einnig eru myndir hans til sýnis og sölu í matvöruversluninni á Siglufirði.
Viðfangsefni hans er aðallega birtan, náttúrustemmingar og það sem verður á vegi hans í nærumhverfinu.

Fjallabyggð, Menningarráð Eyþings og Egilssíld styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.