Fjallabyggð tekur þátt í móttöku flóttafólks frá Úkraínu

Skógræktin á Siglufirði
Mynd: Sveinn Thorsteinsson
Skógræktin á Siglufirði
Mynd: Sveinn Thorsteinsson

Bæjarráð Fjallabyggðar fordæmir harðlega innrás Rússa í Úkraínu sem kallað hefur bæði mikla þjáningu og eyðileggingu yfir saklaust fólk.  

Bæjarráð samþykkir að Fjallabyggð taki þátt í móttöku flóttafólks frá Úkraínu og felur bæjarstjóra að láta ráðuneytið vita um vilja sveitarfélagsins hvað það varðar og að hafa að öðru leyti umsjón með viðræðum við ráðuneytið um hugsanlega móttöku flóttamanna. Það er mat bæjarráðs Fjallabyggðar að það sé skylda allra sem það geta að taka þátt í því að létta byrðar sem hafa verið lagðar á íbúa Úkraínu vegna tilhæfulausar innrásar í landið. Íbúar Fjallabyggðar skorast ekki undan þeirri ábyrgð að hlúa að þeim íbúum Úkraínu sem nú þurfa að flýja heimili sín og það líf sem það fólk áður þekkti. Bæjarráð hvetur alla sem það geta að leggja til húsnæði vegna verkefnisins að skrá það inn á  www.island.is, en móttaka mögulegra flóttamanna til sveitarfélagsins verður skipulögð í nánu samstarfi ríkis og viðkomandi sveitarfélaga. 

Ofangreind ályktun var samþykkt samhljóða á fundi bæjarráðs Fjallabyggðar þann 24. mars síðastliðinn og hefur bæjarstjóri verið í góðu sambandi við yfirmenn þeirra deilda sveitarfélagsins sem munu hafa með móttöku flóttafólks að gera sem og aðila í Fjallabyggð sem kunna að hafa, hug á því að taka á móti flóttafólki eða hafa þegar tekið á móti íbúum Úkraínu sem hafa flúið stríðsátökin. 

Um getur orðið að ræða stórt og viðamikið verkefni á okkar mælikvarða sem mikilvægt er að samfélagið í Fjallabyggð sem og aðrir þeir sem það geta leggi sitt af mörkum svo hægt sé að bregðast við.  Ítrekuð er beiðni sveitarfélagsins til þeirra sem vita um eða ráða yfir húsnæði sem nýta má til afnota fyrir flóttafólk, að skrá slíkar upplýsingar inn á www.island.is 

Elías Pétursson 
Bæjarstjóri.