Fjölmennur kynningarfundur um sameiningarmál.

Í gærkvöldi var haldinn fyrsti kynningarfundur samstarfsnefndar um sameiningu í Eyjafirði og var hann hér á Siglufirði. Fundurinn tókst afar vel, mikið fjölmenni mætti á fundinn og augljóst mál að mikill áhugi er fyrir því að kynna sér málin til hlýtar. Þrír fulltrúar samstarfsnefndar, Sigrún Björk Jakobsdóttir, Unnar Már Pétursson og Valdimar Bragason, fluttu framsöguerindi og síðan var opnað fyrir umræður og fyrirspurnir. Margar ágætar athugasemdir komu fram og fólk var vonandi einhvers vísari eftir þessar góðu umræður.Bæjarstjórn Siglufjarðar boðar til fundar um sameiningarmálin í næstu viku og verður sá fundur fimmtudaginn 29. september.Myndin er fengin af heimasíðu Steingríms og sýnir hluta fundarmanna.